Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir vikudögum
  • Umferðin 2016

Líka mikil aukning í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu

umferðin árið 2016 jókst um ríflega sjö prósent

4.1.2017

Metin falla í umferðinni og þótt umferðaraukningin á höfuðborgarsvæðinu sé ekki jafn mikil og á Hringveginum (sjá eldri frétt) er hún gríðarlega mikil. Í desember jókst umferðin um ríflega 12 prósent. Þegar árið 2016 er gert upp í heild kemur í ljós að umferðin á svæðinu jókst um ríflega 7 prósent sem er mjög mikið. Reynslan sýnir að mikil fylgni er á milli umferðarinnar á höfuðborgarsvæðinu og hagvaxtar, sjá á línuritinu sem fylgir fréttinni og er því umferðin ákveðin vísbending um hver hagvöxturinn verður árið 2016.

Milli mánaða 2015 og 2016
Nú liggur það fyrir að í hverjum einasta mánuði ársins 2016 var slegið met í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Umferðin um þrjú mælisnið á höfuðborgarsvæðinu jókst gríðarlega mikið milli desember mánaða árin 2015 og 2016 eða um rúmlega 12%.  Þessi aukning er önnur mesta aukning ársins en mesta aukning milli desember mánaða frá upphafi þessara mælinga.  Öll mælisniðin þrjú gáfu tveggja stafa hlutfallstölu en mest jókst umferðin um mælisnið á Vesturlandsvegi ofan Ártúnsbrekku eða um rúmlega 13%.

Meðaltalsaukning milli desembermánaða mælist nú 2,3% frá árinu 2005 en 4,2% frá árinu 2011.

Milli áranna 2015 og 2016
Samkvæmt umræddum mælisniðum hefur umferðin á höfuðborgarsvæðinu fyrir allt árið 2016 aukist um rúmlega 7% miðað við árið á undan. Þetta er næst mesta aukning frá upphafi þessarar samantektar en einungis milli áranna 2006 og 2007 hefur mælst meiri aukning en hún varð rúmlega 9%.

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt þessum þremur mælisniðum, hefur aldrei verið meiri og hún er nú orðin 14% meiri en árið 2007.

 

Umferð eftir vikudögum
Á höfuðborgarsvæðinu er umferðin mjög svipuð milli virkra vikudaga en þó varð hún mest á föstudögum en minnst er umferðin um helgar og allra minnst er hún á sunnudögum.

Fyrir árið í heild jókst umferðin hlutfallslega mest á laugardögum eða um 8,8% en minnst var aukningin á mánu- og miðvikudögum eða um 6,4%, sé miðað við árið 2015.

Talnaefni