Fréttir
  • Lykilteljarar á höfuðborgarsvæðinu.
  • Nokkrir teljarar.

Leiðtogafundur Evrópuráðsins hafði lítil áhrif á heildarumferð

19.5.2023

Leiðtogafundur Evrópuráðsins setti sinn svip á umferðina á höfuðborgarsvæðinu þá daga sem hann stóð yfir, 16. og 17. maí. Vegagerðin tók saman umferðartölur þessa daga og bar saman við umferðina vikuna áður.

Niðurstöður umferðartalningar á svokölluðum lykilteljurum sýna að heildarumferð á höfuðborgarsvæðinu var um 2% minni dagana sem leiðtogafundurinn stóð yfir en vikuna á undan. Munurinn á lykilteljurum er þó of lítill til að hægt sé að fullyrða um að umferð hafi minnkað vegna leiðtogafundarins heldur gæti verið um eðlilega sveiflu um að ræða.

Hins vegar er töluverður munur á umferð um Hringbraut og Sæbraut. „Við sjáum að samkvæmt umferðartölum, þá minnkaði umferð á Sæbraut við Höfða töluvert, eða um 60% en hins vegar jókst umferð á Hringbraut að sama skapi um 30% milli þeirra tímabila sem voru til skoðunar. Það gæti gefið vísbendingu um að umferðin um Sæbraut hafi færst yfir á Hringbraut meðan á fundinum stóð,“ segir Sigríður Lilja Skúladóttir, verkfræðingur á umferðar- og umferðaröryggisdeild Vegagerðarinnar.