Fréttir
  • Snjó hefur skafið inn í tengiskápa.

Lagfæringar á götulýsingu standa yfir

Snjór og klaki tefja viðgerðir

13.1.2023

Götulýsing hefur farið úr skorðum víða á Reykjanesi og á höfuðborgarsvæðinu, eins og vegfarendur hafa eflaust orðið varir við. Lagfæringar standa yfir en snjór og klaki hafa tafið þá vinnu.

Nokkuð hefur borið á bilun í götulýsingu á Reykjanesi og á höfuðborgarsvæðinu undanfarið. Þessa bilun má rekja til snjókomu og vonskuveðurs undanfarnar vikur. Snjó hefur skafið inn í tengiskápa með þeim afleiðingum að rafmagn hefur slegið út. Einnig hafa jarðstrengir skemmst eftir rafmagnshögg eftir útslátt.

Unnið er að því að koma götulýsingunni í samt lag en þar sem grafa þarf niður á bilaðar lagnir til að koma þeim í lag gengur það hægar en vanalega því snjór og klaki hafa áhrif á þá vinnu.

Vegagerðin vonast til að götulýsingin verði alveg komin í lag á næstu vikum. 

Myndina tók Guðmundur Jóhannsson hjá Bergraf.