Fréttir
  • Um rúmum meter af mold hefur verið bætt í túnið neðan við Kotstrandarkirkjugarð en þar er framtíðarstaður kirkjugarðsins.

Kotstrandarkirkjugarður fær mold úr framkvæmdum við Suðurlandsveg

Góð samvinna kirkjugarðsins, Vegagerðar og verktaka

20.5.2019

Glöggir vegfarendur sem lagt hafa leið sína milli Hveragerðis og Selfoss undanfarnar vikur hafa tekið eftir því að mikilli mold hefur verið ekið í túnið neðan við núverandi kirkjugarð við Kotstrandarkirkju og vafalaust furðað sig á.

„Þetta er framtíðarstaður kirkjugarðsins en hins vegar er jarðvegsdýptin of grunn. Hún þarf að vera um tveir metrar en það vantar rúman metra uppá. Okkur fannst því kjörið tækifæri að kanna áhuga Vegagerðarinnar og Íslenskra aðalverktaka á því að koma með jarðveg hingað sem til félli vegna framkvæmdanna,“ segir Birgir Þórðarson formaður stjórnar Kotstrandarkirkjugarðs.

Megninu af efninu var ekið á staðinn strax í upphafi verksins. Moldin þarf núna tíma til að þorna áður en hægt verður að slétta úr henni. Verktakinn mun sjá um það og síðan verður sáð í svörðinn svo úr verði hið laglegasta tún.

Kirkjugarðurinn þjónar íbúum Hveragerðis og efri hluta Ölfus. „Enginn kirkjugarður er í Hveragerði sem helgast mikið til af því að jarðvegur þar hentar illa enda mikið um jarðhita og hveri,“ útskýrir Birgir.

Kotstrandarkirkjugarðurinn er rétt um hundrað ára gamall. Hann var stækkaður um tæpan hektara til vesturs af kirkjunni fyrir um tíu árum og er talið að sá hluti muni nýtast næstu fjörutíu árin eða svo. Hinn nýi hluti garðsins mun því ekki fara í notkun fyrr en að þeim tíma liðnum.

Í kringum gamla kirkjugarðinn er veglegur hraungarður sem er hin mesta prýði. Birgir segir hugmyndina vera þá að byggja slíkan hraungarð í kringum nýja garðinn. Það sé þó dýrt verkefni og bíði enn um sinn.

Mikilvægt þykir að hafa sem fallegast í kringum kirkjuna enda er hún vinsæll viðkomustaður ferðamanna. „Hingað kemur fólk bæði til að taka myndir af dæmigerðri íslenskri sveitakirkju og svo þykir staðurinn einnig kjörinn til norðurljósaskoðunar.“