Fréttir
  • Klæðingarvinna

Klæðing - myndband um klæðingarverk

klæðing er mest notaða aðferðin við að leggja bundið slitlag á Íslandi

13.5.2022

Klæðing er sú aðferð sem mest er notuð á Íslandi við að leggja bundið slitlag. Hin aðferðin er að leggja malbik sem gert er á umferðarmestu vegum landsins. Ef ekki væri fyrir klæðinguna væri mun færri kílómetrar af þjóðvegum lagðir bundnu slitlagi en raunin er. Vegagerðin hefur unnið stutt myndband sem lýsir því hvernig klætt er.

Tæplega 6.000 km af um 13.000 km þjóðvegakerfi er lagt bundnu slitlagi. Klæðing er stærsti hluti þess en það kostar 3-5 sinnum meira að leggja malbik og því ljóst að væri ekki fyrir klæðinguna væri minna lagt bundnu slitlagi. Malbik er þó í auknum mæli notað enda eykst umferðin. fyrst og fremst er það umferðarmagnið sem ræður hvað notað er hverju sinni. 

Klæðing er aðferð sem er notuð í mjög mörgum löndum á umferðarminni vegi sem eru með svipaða umferð og á íslenskum þjóðvegum.

Nú þegar líður að sumri mun vinna við klæðingar á þjóðvegunum hefjast og það er margt sem ökumenn þurfa að hafa í huga. Þegar umferð er hleypt á veg sem nýbúið er að leggja yfir má búast við laust steinum til að byrja með þótt yfirborðið hafi verið valtað. Þess vegna er hraðinn tekinn niður til að minnka grjótkast. Vegagerðin hefur í auknum mæli tekið upp það verklag að fylgdarbíll fylgi bílum yfir nýlagða kafla til að tryggja að ekki sé ekið of hratt en það vill brenna við annars.

Síðan á almennt við á öllum vinnusvæðum þar sem unnið er við vegagerð að hlýða hraðafyrirmælum og hægja á sér. Ef ekið er hratt í gegnum vinnusvæði skapast stórhætta fyrir starfsfólk verktaka og Vegagerðarinnar.

Akið varlega.

Klæðingarmyndband