Fréttir
  • Steinninn úr Reykjadal sem nú er varðveittur á Ystafelli er frábrugðin öðrum kílómetrasteinum þar sem hann hefur verið staðsteyptur.
  • Viktor Arnar Ingólfsson tæknifræðingur
  • Atlaskort, 30 km steinn merktur. Hann er nú varðveittur á Ystafelli.
  • 15 km-steinn 107 m austan Hólmsár
  • 50 km steinn Í krikanum sunnan við heimreið að Kotströnd. N63°58,18' V21°08,23'
  • Mælt fyrir kílómetrasteinum eins og frásögn Sigurður Pálssonar lýsir.
  • Sigurður Kristmann Pálsson verkstjóri hjá Vegagerðinni, f. 1886 í Máskeldu í Dölum. d. 1950.
  • Adolf J.E. Petersen (f.1906 d.1985) vegaverkstjóri hjá Vegagerðinni.

Kílómetrasteinar

Grein í Framkvæmdafréttum eftir Viktor Arnar Ingólfsson

31.10.2022

Höfundur: Viktor Arnar Ingólfsson

Ég var nýlega beðinn um að grennslast fyrir um heimildir um kílómetrasteina, þ.e.a.s. tilhöggna steina sem árin fyrir og eftir þarsíðustu aldamót voru settir upp meðfram nokkrum þjóðvegum og mörkuðu vegalengd frá tilteknum upphafsstað með 5 km bili.

Hugmyndin var að kíkja á skjalasafn Vegagerðarinnar en eins og stundum áður fannst þar margt áhugavert en ekkert um það sem leitað var að. Þá beindist leitin að timarit.is.

Kílómetrasteinar eða mílusteinar eru fyrirbæri sem eiga sér sögu í þúsundir ára hjá fornum menningarþjóðum. Einingarnar hafa auðvitað verið mismunandi en tilgangurinn alltaf sá sami, að veita vegfarendum upplýsingar um hve langt þeir séu komnir frá tilteknum stað. Þetta er svo rótgróið hugtak í ensku, milestones, að það er nú notað fyrir hvers kyns áfanga.

Á Íslandi voru frá öndverðu hlaðnar upp vörður ferðalöngum til leiðsagnar um fjallvegi og væntanlega hafa einhverjar þeirra verið viðmið um það hvernig ferðinni miðaði. En þegar aðeins var farið að bæta vegi umfram troðninga þá hefur fylgt vilji til að merkja vegalengdir samkvæmt erlendri fyrirmynd. Metrakerfið hafði verið tekið upp á Íslandi svo önnur eining en kílómetri virðist ekki hafa verið notuð hér. Reyndar var eitthvað um það á þessum árum að nota orðið röst (ft. rastir) um kílómetra þannig að einhverjir töluðu um rastasteina.

En hvernig voru vegirnir mældir í lengd? Það vill svo skemmtilega til að við eigum greinargóða frásögn af slíkri mælingu Kóngsvegarins frá Þingvöllum austur að Brúarhlöðum sumarið 1907. Það var Sigurður Pálsson síðar vegaverkstjóri sem skráði söguna og er hún birt hér sem rammagrein, aðeins stytt. Hluta Kóngsvegarins má enn sjá í Brekkuskógi í Biskupstungum þar sem hann liggur að Brúará rétt neðan við Brúarfoss.

Einhverjar heimildir um hvaða vegir voru markaðir með kílómetrasteinum eru dönsku herforingjaráðskortin og atlaskortin. Þar má sjá kílómetratölur á stöðum þar sem þessir steinar stóðu en þau eru þó ekki áreiðanleg hvað þetta varðar. Frá Reykjavík eru á korti merktir steinar við Suðurlandsveg langleiðina austur að Ytri-Rangá við Hellu, 90 km en ekki lengra. Þó eru til steinar sem stóðu austar og eru þrír þeirra nú á Skógasafni. Á kortunum má sjá kílómetrasteina allt að Eyrarbakka 70 km. Vegurinn um Mosfellsheiði til Þingvalla var merktur 50 km en ekki áfram austur á kortinu þótt frásögn Sigurðar vitni um annað. Vegurinn frá Akureyri um Hörgárdal var merktur fyrstu 20 km skv. korti. Austur frá Akureyri eru engar merkingar að sjá á korti. Frá Húsavík eru merkingar 35 km suður Reykjadal. Vitað er um kílómetrasteina víðar um land.

Til er texti eftir Adolf J.E. Petersen vegaverkstjóra þar sem hann lýsir gerð kílómetrasteina: „Eitt er svo ótalið sem gert var úr höggnu grjóti, en það voru merkjasteinarnir. Með 5 km millibili voru settir steinar við vegbrúnina, eins áberandi og kostur var hverju sinni. Það voru kílómetrasteinar sem svo voru nefndir. Þeir voru tilhöggnir mjög vel, gerð þeirra var sú, að þeir voru í ferkant, höfðu talsverðan setflöt, en grenntust eftir því sem ofar dró. Efst voru þeir ýmist bogadregnir yfir framhlið eða sperrulaga á framhlið, þ.e. sú hlið sem að veginum snéri. Á þá hlið voru höggnir stafirnir km og svo talan sem við átti og sýndi kílómetratöluna frá einum stað til annars. Venjulega var svo málning sett í stafina til að gera þá auðveldari til aflestrar. Steinar þessir eru enn víða meðfram vegum og eru til prýði, ef vel er um þá hirt.“

Frávik frá þessu er steinn úr Reykjadal sem nú er varðveittur á Samgönguminjasafninu Ystafelli en hann hefur verið steyptur á staðnum. Á hann er ritað: 30 KÍLÓM FRÁ HÚSAV. Samkvæmt atlaskorti hefur steinninn verið við Vestmannsvatn, norðan við Hólkot.

En hvernig var ákveðið hvaða vegir skyldu vera mældir í lengd? Árið 1897 var lagt fram á Alþingi frumvarp þess efnis „að mæla skuli á þremur næstu árum alla vegi, sem ákveðnir eru samkvæmt lögum um vegi 13. apríl 1894. Mark skal setja á kílómetramótum, og setja tölur á markið, er sýni vegalengd og vegastefnu. Hreppsnefndir hlutast til um mælingu hreppavega, sýslunefndir um mælingu sýsluvega, og landstjórnin um mælingu þeirra vega, er landssjóður kostar.“ (Stafsetning er færð til nútíma hér og hér eftir í tilvitnunum).

Þetta hefur væntanlega þótt fullmikil merking og frumvarpið náði ekki fram að ganga. En það var engu að síður byrjað að mæla og merkja og hefur líklega þótt vera hluti af vegabótum þegar þær voru gerðar á helstu leiðum.

Í Lögbergi, blaði Vestur-Íslendinga í Kanada 7. október 1897 birtist þessi texti í frétt frá Íslandi: „Nú geta menn riðið eftir sléttri braut alla leið austur að Bitru í Flóa. Þangað austur var brautin komin um fyrri mánaðamót, og hefur henni vel skilað áfram í sumar. Meðfram veginum eru reistir steinar sem sýna vegalengdina, með fimm kílómetra millibili. Næsta merkissteininum hér við Reykjavík kvað nú vera rutt um koll. Hefur kvenmaður, sem fór um veginn í sumar, sagt svo frá, að hún sá 3 karlmenn, sem þar voru líka á ferð, leggjast á eitt til að fella steininn. Rælni eins og þetta er mjög svo vítaverð og þarf bæði mikla heimsku og ónáttúru til þess að geta leikið sér að þess konar spillvirkjum“.

Þetta er elsta prentaða heimildin um uppsetta steina sem ég fann og er það nokkuð dæmigert að henni fylgir frásögn af skemmdum því slíkar frásagnir eru fleiri í heimildum um þessa steina.

Lögrétta 17. september 1913: „Skemmdafargan. Maður, sem kom frá Kolviðarhóli síðastliðinn sunnudag, segir, að öllum kílómetrasteinunum á leiðinni þaðan og hingað til bæjarins, að einum undanteknum, sé rutt um, og meir að segja sumstaðar einnig fótstallasteinunum velt við. Sá eini, sem stendur óhaggaður, er við Sandskeiðið, eða þar skammt fyrir ofan. Þetta skemmdarverk er unnið nú ekki fyrir löngu. Maðurinn, sem þetta er haft eftir, er Sigurður Halldórsson snikkari. Hann fór um veginn næst áður nálægt 20. ágúst og voru þá steinarnir uppistandandi. Þetta er ljótt skemmdarverk og ætti að varða strangri hegningu, ef upp kæmist, hver, eða hverjir, séu að því valdir.“

Í Fjallkonunni 1. nóvember 1898 var þessi texti um upphaf ferðar frá Reykjavík. „Ferðin gekk vel. Það er mikill munur að ferðast nú eða 1892, er ég fór þennan sama veg. Með þessum nýja vegi hafa verið sett vegalengdarmerki, steinar með metramáli, og eru 5 kílómetrar (km. er 530 faðmar) á milli. Ég veitti því eftirtekt, að á hægu brokki er maður um hálfa klukkustund að ríða 5 kílómetra.“

Minnst er á kílómetrasteina í heimildum fram eftir síðustu öld en líkur eru á að við vegabætur á stríðsárunum og þar á eftir, hafi þeim fækkað. Vegalengdarmerkingar hafa orðið úreltar við styttingar leiða og úr hraðskreiðari bílum hefur ekki verið hægt að greina tölustafina sem voru höggnir í grjótið. Kannski hefur það þótt ógna umferðaröryggi að hafa stóra steina við hlið akvegar. Í dag er það allavega ekki vel séð.

Til eru nokkrir kílómetrasteinar sem hefur verið forðað frá glötun. Áður hefur verið minnst á steina á Skógasafni og á Ystafelli og nú stendur til að setja niður tvo steina á áningarstað við Kögunarhól á milli Hveragerðis og Selfoss. Sett verður upplýsingaskilti við steinana. Einnig er vitað um nokkra steina sem eru enn í mörkinni á eða nálægt upprunalegum stað.

Erlendis þekkist það að svona steinar séu hafðir til sýnis á þeim stað þar sem þeir hafa verið frá upphafi og þarf þá gera við þá sérstakan áningarstað. Kannski verður það gert í framtíðinni en að svo stöddu tel ég ágætt að þeir séu sýndir á þennan hátt.

Mælt fyrir kílómetrasteinum

Guðjón Bachmann var til þess kjörinn af aðalhöfðingja verklegra framkvæmda í landssjóðsþarfir, Jóni Þorlákssyni, að mæla veginn frá Þingvöllum að Brúarhlöðum við Hvítá. Þar að auki skyldi hann setja upp steina við hverja 5 kílómetra. Sér til aðstoðar þurfti hann einn mann. Var af hans hendi útvalinn Sigurður Pálsson, höfundur sögu þessarar.

Árla morguns, hinn 22. dag júlímánaðar 1907, hófum við Guðjón þessa för. Veður var hið besta. Svo gott sem það getur verið á Íslandi, og er þá mikið sagt. Við höfðum þrjá hesta, einn undir áhöld og annan farangur. Voru þetta léttar klyfjar og gátum við riðið hratt eftir vild; en sú skemmtun tók brátt enda. Þegar að Hrafnagjá var komið byrjaði mælingin, og fórum við þá með sæmilegum hraða yfir landið; sem ég skal nú skýra betur. Annar okkar sté nú af baki, en hinn tók við reiðhesti hans og klyfjahestinum. Þarnæst tók sá fyrrnefndi mælistikuna í hönd sér og tók að mæla. Mælistikan var þannig útbúin: að skeyttar voru saman tvær grannar tréálmur þannig að bilið á milli þeirra neðst var 2 metrar. Mjókkaði það stöðugt er ofar dró, þar til það hvarf í odda þeim er þær voru skeyttar saman í. Uppaf samskeytunum var sívöl spýta eða handfang. Var nú stikunni snúið í hendi sér, líkt og þegar hringmáli er snúið (sirkli). Taldi sá er gekk metrana, þar til komnir voru 50. Lét hann þá uppi töluna við þann er á eftir var með hestana, og færði hann hana samstundis í bók er hann hélt á. Hann varð því ávallt að vera á hælum þess er mældi, en aldrei fara á undan. Er nú auðskilið að hægt hefir verið farið, og að vinnan var fremur hæg fyrir þann er sat, og hestana. Með þessu seinfæra ferðalagi náðum vér þó að Snorrastöðum í Laugardal um kvöldið kl. 9. Má þó þá leið ríða á 4 tímum. Þar þáðum vér næturgistingu.

Greinin birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 6. tbl. 2022 nr. 721. Rafræna útgáfu má finna hér.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.