Fréttir
  • Covid Umferðin á Hb vikuleg 25
  • Covid umferðin það sem af er ári 22.06.

Jafnvægi í umferðinni eftir Covid 19

Svo virðist sem umferðin á höfuðborgarsvæðinu sé að ná jafnvægi

22.6.2020

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu síðustu tvær vikur er áþekk umferðinni í sömu vikum fyrir ári síðan. Sveiflur eru í umferðinni eftir vikum en hugsanlega spilar veðurspáin þar nokkra rullu þar sem góð spá getur leitt til þess að fleiri haldi út á land af höfuðborgarsvæðinu. Umferðin virðist sem sagt vera búin að jafna sig á samdrættinum vegna Covid 19.

Umferðin í viku 24 reyndist 4,4% meiri en í sömu viku á síðasta ári, fyrir þrjú lykilmælisnið á höfuðborgarsvæðinu. Þessi ,,jákvæði” mismunur er jafnframt sá mesti miðað við það sem liðið er af árinu. Í síðustu viku, eða viku 25, reyndist umferðin hins vegar 1,4% minni en í sömu viku fyrir ári síðan.

Í viku 24 mældist umferð yfir öll mælisnið meiri en á síðasta ári og mestu munaði um tæplega 7% aukningu yfir mælisnið á Reykjanesbraut, sem er jafnframt lang mesta aukningin á þessu ári, en minnst jókst umferðin um mælisnið á Vesturlandsvegi eða um 3,4%.  Þetta er athyglisvert þar sem þetta er í fyrsta skipt sem mælisnið á Hafnarfjarðarvegi er ekki lægst sniðanna þriggja.

Í síðustu viku, eða viku 25, jókst umferðin aftur mest um mælisnið á Reykjanesbraut en mun minna en í viku 24, eða um 2,8%.  Þá mældist hinsvegar 5,4% samdráttur um mælisnið á Hafnarfjarðarvegi í sömu viku.

Það lítur út fyrir að umferð um mælisnið á Reykjanesbraut sé orðin meiri en hún var á sama tíma fyrir ári síðan. Of snemmt er að fullyrða um hin tvö sniðin en þau eru komin fast að því sem umferðin var um þau á síðasta ári.

Hlutfallslegur mismunur varð eftirfarandi, eftir mælisniðum:

Heiti sniðs                                                        vika 24        vika 25

Hafnarfjarðarvegur við Kópavogslæk          +4,0%          -5,4%
Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi         +6,8%         +2,8%
Vesturlandsvegur ofan Ártúnsbrekku           +3,4%         +0,1%