Fréttir
  • Karl Andreassen framkvæmdastjóri ÍSTAK og Óskar Örn Jónsson forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar skrifuðu undir samninginn í húsnæði Vegagerðarinnar í dag, 9. desember 2019.
  • Frá byggingu bráðabirgðabrúar yfir Steinavötn haustið 2017.
  • Gamla brúin yfir Steinavötn.
  • Hópurinn sem kemur að stýringu verkefnisins.
  • Sáttir við góðan samning.

ÍSTAK byggir brýr yfir Steinavötn og Fellsá

Skrifað undir í Vegagerðinni í dag.

9.12.2019

Skrifað hefur verið undir samning við ÍSTAK hf. um smíði nýrra brúa yfir Steinavötn og Fellsá.

Brúin yfir Steinavötn skemmdist haustið 2017 þegar grófst undan einum stöpli brúarinnar í vatnavöxtum. Brúin var komin til ára sinna, 55 ára gömul og 102 metra löng. Þurfti að hafa hraðar hendur og byggja bráðabirgðabrú, en það var gert á innan við viku.

Smíði nýrrar brúar yfir Steinavötn var fyrst boðin út í vor en þá bárust engin tilboð. Útboð fór fram að nýju í haust og bárust þá níu tilboð. Það lægsta frá ÍSTAKI hf.

Verkið snýst um smíði nýrra brúa yfir Steinavötn og Fellsá ásamt uppbyggingu á Hringvegi í Suðursveit á tveimur köflum beggja megin brúa. Veita skal ám undir nýjar brýr og eftir að vegtenging er komin á þær skal fjarlægja bráðabirgðabrýr og –vegi og gera leiðigarða við enda brúar yfir Steinavötn.
Verkinu á að vera lokið 1. apríl 2021.

Karl Andreassen framkvæmdastjóri ÍSTAK og Óskar Örn Jónsson forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar skrifuðu undir samninginn í húsnæði Vegagerðarinnar í dag, 9. desember 2019.