Fréttir
  • Malbiksvinna á Hellisheiði á Hringvegi
  • Pétur Pétursson
  • Birkir Hrafn Jóakimsson

Íslenskt malbik – er það öðruvísi en í öðrum löndum?

Eftir Birki Hrafn Jóakimsson og Pétur Pétursson

7.4.2021

Segja má að þegar íslenskt malbik var hannað í miklu átaki á áttunda áratug síðustu aldar, hafi sú hönnun verið til fyrirmyndar miðað við umferð og aðstæður. Þyngstu bílar voru þá tiltölulega léttir miðað við þunga bíla nútímans og því þurfti ekki að hafa áhyggjur af formbreytingum í malbiki undan þungaumferð. Því var leitast við að hanna malbik sem þéttast, til þess að hindra að vatn kæmist ofan í það.

Breytt samsetning umferðar hérlendis undanfarinn einn til tvo áratugi og aukið álag af völdum þyngri ökutækja, hefur kallað á stífari kröfur til malbiks, ekki síst til að auka viðnám gegn formbreytingum og sliti af völdum negldra hjólbarða.

Segja má að viss straumhvörf hafi orðið árið 2007, þegar keypt voru ný tæki til landsins til hönnunar og prófana á malbiksblöndum. Annars vegar er um að ræða tæki til að mæla formbreytingar í malbiki undan hjólbörðum þungra bíla á heitum sumardögum (hjólfaratæki) og hins vegar tæki til að mæla slitþol malbiks gagnvart nagladekkjum, en Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ) hefur annast þessar prófanir.

Til að byrja kom íslenskt malbik mun lakar út úr prófunum með þessum tækjabúnaði en malbik í nágrannalöndunum, ekki síst hvað varðar skriðeiginleika. Því var ráðist í viðamiklar rannsóknir og þróun á íslensku malbiki í samstarfi Vegagerðarinnar, helstu malbikunarstöðva og NMÍ. Þessi þróunarvinna fólst meðal annars í því að auka notkun á hörðu biki með mismunandi íblöndunarefnum sem auka stífni malbiks. Þessi vinna skilaði sér í því að nú er ekki vandamál að framleiða malbik sem er fyllilega sambærilegt að gæðum og malbik sem framleitt er í nágrannalöndunum. Þó má benda á að samanburður á endingu malbiks á milli landa getur verið ónákvæmur vegna breytileika í ytri aðstæðum, svo sem samsetningu umferðar, veðurfari, vetrarviðhaldi og fleiri þáttum.

Í dag setur Vegagerðin fram mjög strangar kröfur til þeirra efna sem notuð eru í malbik á íslenskum vegum. Öll efni í malbiki, sem Vegagerðin kaupir, eru innflutt hágæðaefni, steinefnin, bindiefnin og íblöndunarefnin. Auk þess eru gerðar verulega stífar kröfur til malbiksblöndunnar sjálfrar, ekki síst til viðnáms gegn formbreytingum og nagladekkjaslits, til að tryggja hámarksendingu malbiksins.

Höfundar greinar:
Birkir Hrafn Jóakimsson er verkfræðingur hjá Vegagerðinni
Pétur Pétursson er ráðgjafi í vegagerð hjá PP-ráðgjöf

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. apríl 2021