Fréttir
  • Marsibil þjálfar smalahunda í óviðjafnanlegu umhverfi.
  • Marsibil með nokkra af hundum sínum en í dag eru 7 fullorðnir hundar á bænum og fimm hvolpar.
  • Sexhjól er mikilvægt farartæki á Dalatanga enda verður vegurinn inn að bænum oft ófær bílum.
  • Dalatangaviti var byggður 1908. Mynd/Guðmundur Jón Björgvinsson
  • Dalatangaviti eldri var byggður 1895 að frumkvæði norska útgerðarmannsins Ottos Wathne. Mynd/Guðmundur Jón Björgvinsson
  • Dalatangaviti var byggður 1908. Mynd/Guðmundur Jón Björgvinsson
  • Aðalheiður Elfríð Heiðarsdóttir flutti heim fyrir fjórum árum og sinnir meðal annars kindunum á bænum.

Í skjóli vita allt sitt líf

Þjálfar smalahunda í frístundum

16.3.2020

Marsibil Erlendsdóttir fór fimmtán ára gömul að leysa föður sinn af við vitavörslu í Dalatangavita. Hún tók að fullu við starfi vitavarðar rúmlega þrítug og sinnir því í dag með aðstoð dóttur sinnar. Marsibil varð sextug þann 20. febrúar og af því tilefni var slegið á þráðinn og spurt frétta.

„Hér úti á tanganum er ekki mikill snjór en hins vegar er harðlokað hér á milli Dalatanga og þorpsins í Mjóafirði. Við löbbuðum inn í skriðurnar um daginn og þar er allt fullt af snjóflóðum,“ segir Marsibil en veðrið hefur verið æði rysjótt í vetur. „Það lokaðist inn í Mjóafjörð rétt fyrir jól. Sonur minn ætlaði að koma um jólin en komst ekki fyrr en 25. desember á bát. Svo var opnað í kringum 20. janúar hér á milli en svo lokaðist all heiftarlega í kringum 20. febrúar, þá byrjaði ballið,“ lýsir Marsibil léttilega en hún og dóttir hennar og sambýlingur Aðalheiður Elfríð eru vanar ýmsu og láta ekki á sig fá að vera innilokaðar á einum afskekktasta stað landsins. Þær eru ekki hræddar um að verða matarlausar en á veturna gengur póstbátur frá Mjóafirði til Neskaupstaðar tvisvar í viku. „Ef veður leyfir kemur báturinn hingað einu sinni í viku, það er að segja ef veturinn er ófær. Þá er settur út gúmmíbátur úr póstbátnum og komið með vörur og póst inn í vík og okkur rétt upp á klappirnar. Annars erum við voðalega rólegar yfir þessu,“ segir Marsibil glaðlega. Sjálf þekkir hún vart annað en að búa afskekkt en faðir hennar var vitavörður, fyrst í Siglunesi og síðar Dalatanga.  

Leysti af 15 ára

„Ég er fædd á Siglufirði, bjó fyrstu árin í Siglunesi, en foreldrar mínir, Erlendur Magnússon og Elfrid Pálsdóttir, fluttust á Dalatanga þegar ég var átta ára, árið 1968. Foreldrar mínir áttu sjö börn, yngsta systir mín var eins árs þegar við fluttum,“ segir Marsibil en flutningarnir voru heilmikið ævintýri enda þurfti að flytja fjölskylduna ásamt kúm, hundi og tækjum sjóleiðis með varðskipinu Árvakri frá Siglufirði inn í Mjóafjörð.

Bærinn Dalatangi er 14 kílómetra frá þorpinu í Mjóafirði en lengra austur er ekki hægt að aka. Leiðin út á Dalatanga liggur eftir mjóum slóða sem fikrar sig út eftir firðinum. Ekið er framhjá skriðum og hamrabrúnum, framhjá fossum og dalgilum. Við Dalatangavita opnast mikið útsýni til norðurs allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar. Vitarnir tveir sem standa á Dalatanga eiga sér merkilega sögu, sá eldri var reistur 1895 að frumkvæði norska útgerðarmannsins Ottos Wathne. Yngri vitinn, sem enn er í notkun, var byggður 1908.

Íbúðarhúsin á Dalatanga eru um 300 til 400 metra frá Dalatangavita og því má segja að Marsibil hafi alist upp í skjóli vita, og vitavarðastarfið er henni í blóð borið. „Maður byrjaði að leysa af í kringum 15 ára aldur. Á þeim tíma voru ljósavélar enn notaðar til að knýja rafkerfi vitans og skipta þurfti um þær kvölds og morgna. Þegar ég var 17 ára fékk pabbi í bakið og þá leysti ég hann af heilt ár, hugsaði um vélarnar og sendi veðrið á þriggja tíma fresti.“

Marsibil kláraði grunnskóla á Eiðum og fór í bændaskólann á Hvanneyri eftir árið sem hún leysti föður sinn af í vitavörslunni. „Ég kynntist manni mínum, Heiðari Woodrow Jones, í kringum tvítugt og við fórum að búa heima á Dalatanga þegar ég var 22 ára.“ Þau hjónin voru með kindur en Heiðar var loftskeytamaður og fór á sjó á togara á veturna. Upp úr 1990 fluttu foreldrar Marsibil inn á Egilsstaði og hún tók við sem vitavörður. „Mamma var búin að fá nóg af því að búa svona afskekkt enda úr stórborg í Þýskalandi og pabbi var orðinn hjartveikur og þorði ekki að vera hér lengur,“ segir Marsibil sem hefur aldrei þótt óþægilegt að búa utan alfaraleiðar. „Við erum meira að segja nýbúin að kaupa bæinn. Ríkiskaup máttu loks selja okkur húsin og við vorum bara að skrifa undir í gær,“ segir hún glaðlega.

Meiri einsetukerling en ég

Heiðar lést fyrir sex árum og um tíma sá Marsibil ein um öll störfin, vitavörsluna, veðurathugunina og búskapinn. Fyrir fjórum árum flutti dóttir hennar, Aðalheiður Elfríð, heim eftir nám og nú búa þær mæðgur saman og deila með sér störfum.

„Heiða er ennþá meiri einsetukerling en ég,“ segir Marsibil og hlær. „Ég hef voða gaman af því að vera innan um fólk, en henni er alveg sama. Samt var hún lengi í Reykjavík og var lítið heima eftir að hún fór í menntaskóla og síðan Háskóla Íslands að læra íslensku. Eftir námið var henni boðið starf í Danmörku en þá ákvað hún frekar að koma heim, henni fannst það meira aðlaðandi en að vinna níu til fimm vinnu.“

Marsibil hafði fækkað kindunum á bænum mikið eftir að maðurinn hennar dó. „Dóttir mín er mest með kindurnar. Þær voru orðnar um 40 en Heiða er að fjölga þeim hægt og rólega aftur.

Ekki stór mál að vera vitavörður

Í hverju felst að vera vitavörður? „Að vera vitavörður er ekkert stór mál. Við förum út í vita einu sinni á dag, þó þess þurfi kannski ekki. Ef peran fer þarf að skipta um hana og ef rafmagnið fer þurfum við að keyra ljósavélarnar. Á sumrin sýnum við ferðafólki vitann og sjáum um að hreint og fínt sé þar inni.“ Þó starfið sé ekki mikið eða flókið er mikilvægt að það sé unnið enda hefur vitinn mikið að segja fyrir öryggi sjófarenda. Marsibil verður strax vör við ef eitthvað er að enda sést vitinn vel frá bænum. „Ef ljósið slokknar sjáum við það strax, enda verður allt dimmt úti,“ segir hún glettin.

Hér snýst allt um veður

Mun meiri vinna er í kringum veðurathugun fyrir Veðurstofu Íslands. „Við þurfum að gera veðurathugun á þriggja tíma fresti allan sólarhringinn. Þá förum við út, kíkjum eftir veðri, vindum, sjólagi og skýjahæð.“ Slítur það ekki í sundur sólarhringinn? „Eftir að dóttir mín flutti heim tekur hún alltaf veðrið á miðnætti og klukkan þrjú. Ég fer út klukkan 6 og 9, og deginum skiptum við svo bara á milli okkar. Hér snýst allt um veður, og við erum alltaf tilbúnar.“

Á Dalatanga er einnig sjálfvirk veðurstöð en að sögn Marsibil vill Veðurstofan einnig fá mannlegt auga á veðrið enda hefur komið fyrir að sjálfvirka veðurstöðin hafi bilað. „Það er mjög mikilvægt að fólk fái upplýsingar um veðrið hér enda erum við hér nálægt miðunum, nánast út í ballarhafi.“

Nóg að gera

Innt eftir því hvað mæðgurnar gera sér til dægrastyttingar liggur ekki á svörum. „Það er allt frá A til Ö. Við erum núna að mála hér inni og gera fínt. Ég er með border collie hunda sem ég er að temja, svo förum við á hestbak, hugsum um kindurnar, förum í göngutúr upp á hjalla eða stússumst eitthvað. Það er alltaf nóg að gera.“

Sumrin eru ekki síður annasamur tími. Þá þarf til dæmis að heyja en Marsibil segir graslendið þokkalegt, og nægja fyrir um 120 rollur. „Svo þurfum við oftast að redda okkur sjálfar. Ef eitthvað bilar gerum við við það, oft með leiðbeiningum í gegnum síma eða tölvu.“

Ræktar og þjálfar smalahunda

Marsibil er með sjö fullorðna border collie hunda og fjóra hvolpa. Það eitt og sér er nánast full vinna. „Þeir mega ekkert vera lausir úti og maður þarf því að labba með þá til og frá. Svo er það þjálfunin. Það er búið að vera leiðinlegt veður síðasta hálfa mánuðinn so ég hef lítið getað tamið þá en nú fer ég að byrja á því aftur.“ Marsibil þjálfar hundana sína til að smala kindum og í þjálfunina notar hún sérstakan hóp af geldum kindum.

Áhuginn á smalahundaþjálfun hefur fylgt Marsibil lengi. „Við keyptum fyrsta hundinn 1987. Síðan þá hef ég farið á fjölmörg námskeið bæði innanlands og utan og geri enn.“ Hún segir mikla vinnu liggja að baki góðum smalahundi. „Upp úr sex mánaða prófar maður hvort þeir séu komnir með áhuga á kindum en um eins árs byrjar maður þjálfun fyrir alvöru. Um fjögurra ára er hundur fulltaminn en vissulega er hægt að byrja að nota þá við smölun mikið fyrr, allt niður í eins og hálfs árs ef hundurinn er móttækilegur.“

Marsibil smalar aldrei án hunda enda segir hún einn hund vera á við fimm eða sex menn. „Maður getur sent þá upp í fjall til að ná kindum niður. Maður stjórnar þeim með því að segja hægri, vinstri og leggjast.“ Marsibil segir nokkra eftirspurn eftir tömdum hundum frá bændum um allt land. „Ég sel bæði hvolpa og hálf tamda hunda,“ segir Marsibil sem er í Smalahundafélagi Íslands og keppir þegar hún hefur tækifæri til.

Haldið upp á tvöfalt stórafmæli í sumar

Marsibil varð sextug þann 20. febrúar síðastliðinn. Gerði hún eitthvað í tilefni dagsins? „Ég hef örugglega bara eitthvað verið að stússast. En jú, við fengum okkur einhverja tertu og höfðum það næs,“ segir hún glaðlega. Aðal veislan verður hins vegar í sumar. „Þá er ætlunin að halda stórveislu. Móðir mín verður þá níræð og veislan okkar verður sameiginleg.“