Fréttir
  • Bryndís Tryggvadóttir verkfræðingur á hafnadeild Vegagerðarinnar. Mynd/SóGí

Hvernig má meta sjávarflóðahættu?

Meistarafyrirlestur Bryndísar Tryggvadóttur í umhverfisverkfræði

16.1.2020

Bryndís Tryggvadóttir verkfræðingur á hafnadeild Vegagerðarinnar ver meistararitgerð sína í umhverfisverkfræði fimmtudaginn 16. janúar. Ritgerðin ber heitið Mat á aftaka sjávarflóðum – Innleiðing aðferðar sem byggist á samlíkum útgilda.

Samfélögum sem búa nærri sjó stafar stöðug ógn af sjávarflóðum og sú ógn eykst með hækkandi yfirborði sjávar. Áreiðanlegt mat á flóðahættu er nauðsynlegt svo hægt sé að takmarka hættuna eins mikið og unnt er. Markmið meistaraverkefnis Bryndísar er að innleiða aðferð við mat á sjávarflóðahættu.

„Ég var svo heppin að þetta verkefni féll eiginlega í hendurnar á mér. Mig langaði að gera eitthvað frumlegt og þar sem mér finnst gaman að fikta í forritum eins og MATLAB var þetta tilvalið verkefni fyrir mig.  Sjórinn og varnarmannvirki hafa mér alltaf þótt áhugaverð og hef haft gaman af að pæla í hvað þurfi til að vörnin bregðist og við hvaða aðstæður það gerist,“ segir Bryndís sem hefur verið á hafnadeild Vegagerðarinnar síðustu mánuði, fyrst sem nemi en hefur nú verið ráðin tímabundið í fullt starf.

Bryndís segir verkfræðinámið í Háskóla Íslands ekki leggja mikla áherslu á strandverkfræði. „Mér þótti því spennandi að fást við eitthvað splunkunýtt, enda hef ég lært mjög mikið af því að vinna þetta verkefni. Þetta var eins og Kaninn segir „steep learning curve“, segir Bryndís glettin.

Í verkefni sínu notaði Bryndís svokallaða Monte Carlo hermun ásamt greiningu á samlíkum þátta til að útbúa stórt gagnasafn af aftaka atburðum í úthafi sem nær yfir u.þ.b. 10.000 ár og byggist á 35 ára langri tímaröð af öldu-, vind- og sjávarfallamælingum.

„Þessi aðferð tryggir að samlíkur á vindi, öldu og sjávarföllum haldist þegar ýktir atburðir eru hermdir, en það hefur þótt vanta í aðrar aðferðir sem hafa hingað til verið notaðar,“ segir Bryndís.

Hún notaði í litlum mæli MIKE 21 SW öldulíkan en aðferðin er tímafrek og því var aðeins hluti af atburðunum keyrður í gegnum líkanið og niðurstöðurnar notaðar til að stilla af meta model sem síðan var notað til að færa alla atburðina nær ströndinni.

„Niðurstöðurnar voru síðan notaðar til að meta líkur á sjávarflóðum með því að áætla ágjöf yfir sjóvarnamannvirki á land, bæði fyrir núverandi ástand og með hærra sjávaryfirborð, fyrir sex staði á stórhöfuðborgarsvæðinu og Akranesi. Niðurstöður verkefnisins eru grundvöllur fyrir því að hægt sé að nota þessa aðferð víðsvegar um landið þar sem þörf er á mati á sjávarflóðhættu.“

Bryndís mun halda áfram að vinna að verkefninu fyrir Vegagerðina næsta hálfa árið hið minnsta. „Ég mun betrumbæta það svo hægt sé að nota aðferðina á fleiri stöðum á landinu.“

Vörn Bryndísar fer fram í dag, fimmtudaginn 16. janúar klukkan 12.30 í VR-II stofu 261.