Fréttir
  • Merkt hjáleið verður um bráðabirgðatengingar af Hringvegi  yfir á Ölfusveg austan við Varmá.
  • Merkt hjáleið verður um bráðabirgðatengingar af Hringvegi  yfir á Ölfusveg á móts við Friðarminni rétt vestan við Gljúfurárholtsá.
  • Hjáleið verður um nýjan Ölfusveg.
  • Merkt hjáleið verður um bráðabirgðatengingar af Hringvegi  yfir á Ölfusveg austan við Varmá .
  • Í verkinu eru innifaldar breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja sem og nýlagnir og landmótun.
  • Yfirlitsmynd yfir framkvæmdir á fyrsta áfanga.

Hjáleið um kafla á Hringvegi (1) milli Hveragerðis og Selfoss frá 22. maí

Opið um hjáleið

21.5.2019

Hjáleið verður á kafla á Hringvegi (1) milli Gljúfurholtsá og Varmá frá 22. maí til 15. september 2019 vegna breikkunar Hringvegar á þessum kafla á milli Hveragerðis og Selfoss. Merkt hjáleið verður um bráðabirgðatengingar af Hringvegi  yfir á Ölfusveg austan við Varmá og á móts við Friðarminni  rétt vestan við Gljúfurárholtsá. Jafnframt verður þá opnað fyrir innansveitarumferð um Ásnesveg, þótt hann sé ekki enn frágenginn með bundnu slitlagi.

Góður gangur í framkvæmdum
Vinna við fyrsta áfanga breikkunar vegarins milli Selfoss og Hveragerðis stendur yfir af fullum krafti. Verkið „Gljúfurholtsá – Varmá“ er 1. áfangi af verkinu Hringvegur(1) Biskupstungnabraut – Hveragerði, en Íslenskir aðalverktakar sjá um framkvæmdina.

Í þessum fyrsta áfanga felst breikkun Hringvegar í 2+1 veg ásamt gerð nýrra gatnamóta við Vallaveg og Ölfusborgaveg. Heildarlengd kaflans er um 2,5 km. Til framkvæmdanna telst einnig gerð nýrra hliðarvega sem tengjast nýjum vegamótum, annars vegar Ölfusvegar frá Ölfusborgavegi að Hvammsvegi og hins vegar Ásnesvegar frá Vallavegi að Ásnesi. Nýju hliðarvegirnir, Ölfusvegur og Ásnesvegur, verða samhliða Suðurlandsveginum.

Inni í verkinu er einnig breikkun brúar yfir Varmá og undirgöng austan Varmár fyrir gangandi og ríðandi. Einnig eru innifaldar breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja sem og nýlagnir og landmótun auk annarra þátta sem nauðsynlegir eru til að ljúka verkinu.

Þegar er búið að breikka brúnna yfir Varmá og undirbúningur að hefjast við undirgöng austan Varmár. Unnið er við breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja.

Vegtengingum fækkar

Fjölmargar vegtengingar eru á kaflanum frá Hveragerði til Selfoss en með nýjum vegi leggjast þær mestmegnis af og fara þess í stað um hliðarvegi. Tvær tengingar verða inn á þjóðveginn í fyrsta áfanga, önnur rétt við Eldhesta sem tekur við umferð frá svæðinu neðan við veg og hin við Ölfusborgir sem tekur við umferð ofan við veg.

Vegurinn verður svokallaður tveir plús einn vegur, með aðskildum akreinum, en gert er ráð fyrir því að í framtíðinni verði hægt að breikka veginn í tvo plús tvo án mikilla vandkvæða enda undirbygging vegarins útbúinn með það í huga.

Nú er komið að því að breikka Hringveginn sjálfan í 2+1 veg á þessum kafla og gerð vegamóta og því er nauðsynlegt að loka aðalveginum og beina umferð um hjáleiðina. Eins og áður sagði tekur lokunin gildi 22. maí og stendur til 15. september 2019.

 

Vonast er til að hægt verði að bjóða út næsta áfanga verksins í haust sem mun þá ná að Biskupstungnabraut.

 

Hér má sjá myndband af allri framkvæmdinni....