Fréttir
  • Mosfellsdalur deiliskipulag
  • Mosfellsdalur deiliskipulag
  • Mosfellsdalur deiliskipulag

Hringtorg til að draga úr hraða og auka umferðaröryggi á Þingvallavegi

Engin áform um stórfelldar framkvæmdir við veginn

16.2.2017

Meginmarkmið með gerð deiliskipulags Þingvallavegar í Mosfellsdal er að ákveða umferðarmannvirki og umhverfi til framtíðar þannig að stuðlað sé að auknu öryggi í umferðinni og betri sambúð byggðar og vegar. Sérstaklega er hugað að öruggum gönguleiðum fyrir börn á leið í og úr skóla og ráðstöfunum til að draga úr hraðakstri. Áhersla hefur verið lögð á samráð við íbúa í Mosfellsdal.

Umræða um nýtt deiliskipulag í Mosfellsdal og vegagerð í tengslum við það hefur verið nokkur að undanförnu, því hefur stundum verið haldið fram að til stæði að fara í stórfelldar vegaframkvæmdir, jafnvel með tvöföldun vegarins en sú er ekki reyndin, tilgangurinn er að koma til móts við íbúa og freista þess að ná niður ökuhraða og auka umferðaröryggið.

Helstu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru ,samkvæmt því deiliskipulagi sem nú er unnið að, eru gerð tveggja hringtorga á Þingvallavegi, annars vegar við gatnamót Helgadalsvegar og hins vegar við Æsustaðaveg og Mosfellsveg (eða aðeins vestar) og að í kjölfarið verði hægt að fækka tengingum við Þingvallaveg á þessum vegkafla. Gert er ráð fyrir að framkvæmdin muni leiða til þess að meðalhraðinn muni lækka. Ætla má að með lægri meðalhraða og færri vegtengingum dragi úr slysahættu og hljóðmengun. Auk hringtorganna er gert ráð fyrir hraðalækkandi „aðkomuhliðum“ á þeim stöðum þar sem hraðaviðvaranir hafa verið upp settar undanfarin ár.

Hvorki stendur til að byggja 2+1 veg né tvöfalda veginn enda annar vegurinn vel þeirri umferð sem þarna er. Í skipulagstillögunni er þó gert ráð fyrir að akreinar verði breikkaðar um 20 cm hvor akrein auk þess verði axlir breikkaðar úr 30 cm í 1 m til að auka öryggi hjólandi vegfarenda. Alls gæti því vegurinn breikkað um 1,80 m. Fé til þessara framkvæmda er þó ekki í hendi. Ekki er gert ráð fyrir þeim á samgönguáætlun 2015-2018 sem Alþingi samþykkti í október 2016, en sú áætlun þarfnast breytinga eftir að fjárlög voru samþykkt. Þannig er allt óljóst með fjármögnun þessa verks og því ekki vitað hvenær til framkvæmda gæti komið.

Samkvæmt tillögunni verða núverandi undirgöng við Suðurá áfram en aðkoma að þeim bætt. Undirgöng verða staðsett vestan við hringtorgið við Helgadalsveg. Gert er ráð fyrir umferð gangandi, ríðandi og hjólandi um undirgöngin. Aðskilnaður verður í undirgöngunum sem aðgreinir umferð ríðandi frá annarri umferð. Við vestara hringtorgið er gert ráð fyrir merktum gangbrautum.

Fyllt verður upp í skurð sem er meðfram Þingvallavegi, samkvæmt tillögunni, sem gerir mögulegt að færa göngustíginn fjær veginum. Stígurinn er 3 m breiður og í 5 m fjarlægð frá Þingvallavegi. Nánari lega stígsins verður ákveðin í hönnun á framkvæmdastigi. Gerð er gönguleið yfir Helgafellsveg sem tengir nýja stíga meðfram Hraðastaðavegi og Helgafellsvegi við núverandi stíg meðfram Þingvallavegi. Gert er ráð fyrir nýjum stíg vestan við Helgafellsveg.

Unnið er að deiliskipulaginu og athugasemdafrestur til sveitarfélagsins er nýliðinn. Það er sveitarfélagið Mosfellsbær sem vinnur deiliskipulagið.


Athugið að myndirnar sem fylgja fréttinni eru teknar úr deiliskipulagstillögunni og hugsanlegt er að endanleg útfærsla verði eitthvað ólík þessu þótt meginatriðin haldi sér.

Sjá nánar hér um deiliskipulagstillöguna.

Mosfellsdalur deiliskipulag