Fréttir
  • Leiðarlínur í stóru opnu rými geta hjálpað blindum og sjónskertum að rata um og komast að og frá svæðinu. Mynd: Berglind Hallgrímsdóttir
  • Skýr skil eru milli vegfarendahópa, sjálfgefnar leiðarlínur beggja megin við gangstéttina og skýr kantur að hjólastíg. Mynd: Áslaug Katrín Aðalsteinsdóttir
  • Halli, hæðarmunur og kantar hafa mikil áhrif á hvort leiðir eru færar öllum. Fyrir framan þessa byggingu hefur skábraut verið komið fyrir til að auðvelda aðgengi allra. Mynd: Berglind Hallgrímsdóttir

Hönnun fyrir alla

Algild hönnun utandyra

3.10.2019

Hönnun fyrir alla – algild hönnun utandyra, er leiðbeiningarit sem unnið er fyrir Vegagerðina og Reykjavíkurborg af Áslaugu Katrínu Aðalsteinsdóttur og Berglindi Hallgrímsdóttur hjá Verkís.

Áslaug og Berglind hlutu styrk úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar til að vinna leiðbeiningarnar sem nú hafa verið birtar á vef Vegagerðarinnar.

Leiðbeiningunum er ætlað að kynna helstu þætti sem þarf að hafa í huga þegar svæði utandyra eru hönnuð svo þúa nýtist sem allra flestum. Hönnun fyrir alla, algild hönnun og aðgengi fyrir alla, eru hugtök sem sífellt fleiri þekkja og samtímis eykst vitund fólks um mikilvægi þess að hafa alla í huga við skipulag, hönnun og útfærslu hugmynda.

Lög og reglur sem gilda um opinberar byggingar og aðgengi að þeim meðal annars frá bílastæðum að inngangi er þekkt. Mun fleiri þætti þarf þó að hafa í huga og í leiðbeiningunum er sérstök áhersla lögð á hönnun utandyra, m.a. í tengslum við stíga og torg, almenningssamgöngur og aðgengi að mannvirkjum, stofnunum og þjónustu. Áherslan er á eignir í opinberri eigu eða notkun en ekki einkaeignir, þó vissulega megi nýta leiðbeiningarnar fyrir lóðir í einkaeign.

Markmiðið með útgáfu leiðbeininganna er að samræma og auðvelda hönnun, skipulagningu og útfærslu mannvirkja utanhúss svo að sem flestir hafi möguleika á því að ferðast um án aðstoðar. Samræming á milli sveitarfélaga getur auðveldað fólki að ferðast á milli staða.

Ekki allir hafa aðgang að bíl

Undanfarna áratugi hefur hönnun utanhússsvæða og umferðarmannvirkja að stórum hluta snúist um að koma fólki á milli staða í bíl. Það gleymist að ákveðnir hópar fólks hafa ekki getu eða tækifæri á að keyra bíl. Einnig hefur hönnun miðast við vegfarendur án skerðinga.

Ein helsta hindrun fyrir notkun á algildri hönnun hefur verið sú ályktun að tiltölulega fáir glími við skerðingar og hamlandi þætti umhverfis og því sé óþarfi að hanna með tilliti til allra. Þá gleymist oft að taka tillit til þess að stór hluti þeirra sem búa við skerðingar eru eldra fólk. Talið er að um 15% af mannfjölda jarðar lifi við skerta færni á einhverju sviði og stór hluti þeirra er eldra fólk. Miðað við hækkandi hlutfall eldra fólks í heiminum má áætla að hlutfall þeirra sem lifa með skerðingar eigi eftir að aukast í náinni framtíð.

Oft og tíðum hugsar fólk einungis um aðgengi fyrir fólk í hjólastól þegar spurt eða talað er um aðgengi. Algild hönnun snýr hins vegar að því að sem flestir komist leiðar sinnar. Þumalputtareglan er sú að ef við hönnum með tilliti til veikasta einstaklingsins þá eigi sú hönnun að nýtast allflestum við að komast um af sjálfsdáðum. Þannig snýr algild hönnun líka að þeim sem eru með ferðatöskur, barnavagna, fólk sem glímir við tímabundnar skerðingar (gifs meðal annars), sjónskerta, heyrnarskerta o.s.frv.

Leiðbeiningaritið má finna hér:  Hönnun fyrir alla - Algild hönnun utandyra