Fréttir
  • Jafnvel þótt ég sé í fríi kem ég í kaffi og heilsa upp á vinnufélagana,
  • Þórður sér um að líma glit á vegstikur og leggur þannig sitt af mörkum við að tryggja öryggi vegfarenda.
  • Hér er Þórður með Halldóri Þórðarsyni, föður sínum. Halldór stofnaði Þorrakórinn og stjórnar honum enn, og Þórður syngur með kórnum.
  • Þórður heldur þrjátíu og tvær kindur að Saurum, sem er eyðibýli rétt sunnan við Búðardal.
  • Vinirnir Þórður og Sæmundur hafa þekkst frá því þeir voru litlir strákar. Þeir vinna saman hjá þjónustustöð Vegagerðarinnar í Búðardal.

Hobbýbóndi hjá Vegagerðinni

Viðtal við Þórð Karl Halldórsson

20.12.2021

Þórður Karl Halldórsson var bóndi, sjómaður, bílstjóri og trommari þegar líf hans tók breytta stefnu í kjölfar alvarlegra veikinda. Hann kom til starfa hjá þjónustustöð Vegagerðarinnar í Búðardal fyrir níu árum og sér meðal annars um að líma glit á vegstikur. Þannig leggur hann sitt af mörkum til að tryggja öryggi vegfarenda. Þórður kann vel við sig hjá Vegagerðinni og vinnufélagarnir eru á meðal hans bestu vina.

Í þjónustustöð Vegagerðarinnar í Búðardal er tekið vel á móti blaðamanni Framkvæmdafrétta, með lifrarpylsu, rófustöppu, smákökum og kaffi. Veðrið er eins og best verður á kosið, sól skín í heiði og útsýnið gott yfir Fellströndina, Skógarströndina og alla leið að Snæfellsjökli. Við Þórður og Sæmundur Kristjánsson yfirverkstjóri setjumst inn á kaffistofuna og byrjum á að rifja upp æskuárin en þeir tveir hafa verið vinir næstum alla ævi.

„Við erum báðir héðan úr sveitinni en þegar við vorum sjö ára hófum við skólagönguna í Laugaskóla í Dalasýslu. Eins og tíðkaðist í þá daga vorum við á heimavist. Að loknu grunnskólaprófi lá leið okkar til Búðardals, en þar vorum við saman í skóla í eitt ár og leigðum auk þess herbergi á sama stað,“ segja þeir félagar.

Strax á unga aldri kom í ljós að Þórður hafði þá náðargáfu að geta spunnið upp sögur án þess að hafa mikið fyrir því. „Á kvöldin sagði hann okkur skólabræðrunum heilu sögurnar sem hann bjó til sjálfur. Oftast voru þetta spennandi sögur með fremur flóknum söguþræði. Í raun er ótrúlegt hversu vel honum tókst að halda utan um alla þræði. Sögustundirnar með Þórði voru tilhlökkunarefni í strákahópnum,“ rifjar Sæmundur upp.

Frá Búðardal lá leið Þórðar í Bændaskólann á Hvanneyri þar sem hann lærði búfræði, enda var draumurinn alltaf að verða bóndi. „Ég tók síðan við búinu af foreldrum mínum á Breiðabólsstað. Þar var ég með um 600 fjár og nokkra hesta. Jafnframt gerði ég út lítinn bát og var á grásleppuveiðum. Á haustin keyrði ég fjárflutningabíl,“ upplýsir Þórður.

Hann gekk í hjónaband með Önnu Karin Cederholm og eignuðust þau tvö börn, þau Grétu Rún og Halldór Erik, sem nú eru sextán og átján ára. Leiðir þeirra hjóna skildu og búa börnin með móður sinni í Svíþjóð, þaðan sem hún er. Þau halda mjög góðu sambandi við föður sinn, koma í heimsókn á hverju ári og þess á milli spjalla þau saman á Skype.

Söngur spilar stórt hlutverk í lífi Þórðar. Hann hefur alltaf verið mikill söngmaður og er með hljómmikla og fallega rödd. Hann syngur með kirkjukórnum í Búðardal, Þorrakórnum og Söngbræðrum, og var lengi vel í kvartett með strákunum í sveitinni. Hann segist þó ekki syngja mikið einn með sjálfum sér en hefur mikið yndi af því að vera í kór.

„Kirkjukórinn syngur við messur og athafnir á borð við giftingar, skírnir og jarðarfarir. Faðir minn, Halldór Þórðarson, stofnaði Þorrakórinn, sem syngur á þorrablótum í sveitinni. Hann er enn þá kórstjóri, þrátt fyrir háan aldur og slær ekkert af,“ segir Þórður. „Ég var svo trommari í hljómsveitinni sem spilaði á þorrablótum Fellsstrendinga í félagsheimilinu á Staðarfelli,“ bætir hann við.

Lífið tók breytta stefnu

Þegar Þórður var rétt að verða fimmtugur fékk hann æðagúlp í heila, sem átti eftir að hafa mikil áhrif á líf hans. Hann fór í aðgerð þar sem til stóð að gera við æðagúlpinn en ekki vildi betur til en að gúlpurinn sprakk með alvarlegum afleiðingum. Þórður lamaðist að hluta á hægri hlið líkamans og málstöðvarnar sem stjórna tali og samræðum urðu fyrir skaða. Hann notar því stikkorð til að tjá sig og fær aðstoð frá Sæmundi í þessu viðtali. Hins vegar missti Þórður ekki hæfileikann til að syngja. Fyrstu árin eftir þetta áfall reyndust Þórði erfið eins og gefur að skilja. Hann varð að bregða búi og selja bátinn sinn en hann ákvað að leggja ekki árar í bát heldur halda áfram með líf sitt. Sæmundur segir aðdáunarvert hvað Þórður sé jákvæður og glaðlyndur, hafi mikið jafnaðargeð og það sé ávallt stutt í hláturinn hjá honum.

„Fjórum árum eftir þetta áfall kom Þórður til starfa hjá Vegagerðinni og var strax góð viðbót við hópinn. Það kom þannig til að félagsþjónustan í Búðardal hafði samband við okkur hjá Vegagerðinni, eftir ábendingu frá Eyþóri J. Gíslasyni sem þá var starfsmaður Vegagerðarinnar og sveitastjórnarmaður, til að kanna hvort við hefðum verkefni sem hann gæti sinnt. Við vorum til í að skoða málið og sáum að það kæmi sér vel að fá hann til að sinna stikunum. Hreinn Haraldsson, fyrrum vegamálastjóri, samþykkti það strax og stuttu síðar kom Þórður til starfa. Til að byrja með var hann í tuttugu prósent vinnu en síðan fór það upp í fjörutíu prósent starfshlutfall og svo er enn,“ segir Sæmundur, en síðan eru liðin níu ár.

Þórður tekur virkan þátt í félagslífinu í vinnunni og hefur kynnst mörgum í gegnum Vegagerðina. „Það kom aldrei annað til greina en að hann væri með í öllu sem við gerum saman, enda er hann hluti af hópnum. Í fyrra þegar starfsmannafélagið á Vesturlandi hélt sína árlegu sviðaveislu, ákváðu Þórður og Ásgeir Salberg Jónsson söngfélagi hans úr kvartettinum og núverandi starfsmaður Vegagerðarinnar í Borgarnesi, að troða upp og taka tvö lög, án þess að við hin vissum af því. Þegar þeir stigu á svið og hófu upp raust sína var ekki laust við að það glitraði tár á hvarmi margra vinnufélaga hans,“ rifjar Sæmundur hlýlega upp.

Mikilvæg nákvæmnisvinna

Þórður er í samstarfi við rekstrardeild Vegagerðarinnar, sem sendir reglulega bretti með þúsund vegstikum í Búðardal. Ákveðin gerð af fitu er notuð við framleiðslu á stikum og hana þarf að fjarlæga svo að glitið festist almennilega á þær. Þórður tekur því hverja einustu stiku, þrífur fitu burt með ashintoni og festir svo glit á hana. Þetta er mikið nákvæmnisverk og leysir Þórður verk sitt vel af hendi.

„Vegstikurnar eru síðan búntaðar í 25 stiku búnt og þannig skilum við þeim frá okkur. Héðan eru stikurnar sendar á vöruhótel í Reykjavík og þaðan fara þær út um allt land. Við sendum stikur beint frá okkur vestur á firði og út á Snæfellsnesið. Það hefur komið sér vel að búnta stikurnar á þennan hátt, því þá vitum við hvaða stikur eru frá okkur,“ upplýsir Þórður.

„Það fer líka tími í að sinna viðhaldi á stikum. Þær fjúka af vegum í vondum veðrum, eru keyrðar niður eða kastast í burtu frá snjómoksturstækjum en Vegagerðin endurvinnur þær eftir því sem kostur er,“ bætir hann við.

Þórður er með vinnuaðstöðu á verkstæði Vegagerðarinnar og vinnufélagarnir passa upp á að það fari vel um hann. „Þeir dekra við mig. Ég er kominn með nýjan stól og nýtt borð. Aðstaðan er orðin svakalega fín,“ segir hann brosandi.

Hann kann líka vel að meta þá rútínu sem fylgir því að vera í föstu starfi. „Jafnvel þótt ég sé í fríi kem ég í kaffi og heilsa upp á félagana,“ segir Þórður.

Bóndi inni við beinið

Þótt Þórður sé ekki með búskap lengur blundar alltaf í honum bóndi og hann heldur þrjátíu og tvær kindur að Saurum, sem er eyðibýli rétt sunnan við Búðardal. „Ætli það megi ekki kalla mig hobbýbónda. Ég hef afskaplega gaman af því að sinna kindunum og það gefur mér mikið. Ég fer daglega í fjárhúsin, næ í heytuggu inn í hlöðu og gef þeim á garðann. Oft sit ég og fylgist með þeim éta, klappa þeim og spjalla við þær,“ segir Þórður, sem á líka köttinn Hring.

Spurður hvort hann eigi sér mörg áhugamál segir Þórður vissulega svo vera. „Ég hef mjög gaman af því að púsla. Það æfir fínhreyfingarnar og þjálfar hugann. Mér finnst líka gaman að ferðast. Ég fór með Sæmundi G. Jóhannssyni hjá Vegagerðinni vestur á firði í sumar. Síðan fór ég norður í land að hitta fyrrum nágranna minn. Ég spila líka bridds í iPadnum sem samstarfsfélagar mínir gáfu mér í sextugsafmælisgjöf í fyrra,“ greinir Þórður frá.

Ekki stendur á svari þegar Þórður er spurður hvernig  honum líki að vinna hjá Vegagerðinni.  „Ágætlega og vinnufélagarnir eru skemmtilegir,“ segir Þórður Karl Halldórsson brosandi að lokum.

Þessi grein birtist í 7. tbl. Framkvæmdafrétta.   Rafræna útgáfu má finna hér.    Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.