Fréttir
  • Ferðin hófst í Borgartúni en einhverjir hjóluðu frá starfsstöð Vegagerðarinnar í Hafnarfirði.
  • Við upphaf ferðar í Borgartúni.
  • Nýjar höfuðstöðvar í baksýn.
  • Matarvagn beið eftir hópnum.

Hjólað í nýjar höfuðstöðvar

14 km leið á fínum hjólastígum

26.5.2021

Hópur starfsfólks Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu hjólaði úr núverandi höfuðstöðvum Vegagerðarinnar í Borgartúni og frá starfsstöð í Hafnarfirði í nýjar höfuðstöðvar í Suðurhrauni 3 í Garðabæ í gær, þriðjudaginn 25. maí. Starfsemi Vegagerðarinnar í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði mun í ár sameinast í hinum nýju húsakynnum sem verið er að leggja lokahönd á.

Almenn ánægja var með hjólaleiðirnar en hópurinn skipti sér í tvennt og hjólaði annarsvegar meðfram Hafnarfjarðarvegi og hins vegar Sæbraut. Báðir hópar voru um klukkutíma á leiðinni og fóru um 14 kílómetra hvor.

Við hinar nýju höfuðstöðvar beið matarvagn eftir hópunum með ilmandi hamborgara sem hjólarar gæddu sér á af bestu list.

Góð aðstaða verður fyrir hjólandi í nýjum höfuðstöðvum. Stór hjólageymsla og búningsaðstaða enda hvetur Vegagerðin starfsmenn sína til fjölbreyttra ferðamáta. Vegagerðin hefur í gegnum tíðina komið að uppbyggingu hjólastíga með styrkveitingum í samræmi við vegalög og ákvörðun Alþingis um samgönguáætlun. Þá gerir Vegagerðin sameiginlega áætlun með sveitarfélögum um leiðarval stíganna.

Stofnleiðir hjólandi er einnig eitt af verkefnum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins en áætlað er að 8,2 milljörðum króna verði varið í gerð hjólastíga, göngubrúa og undirganga næstu 15 árin.