Fréttir
  • Hellisheiðin er lokuð. Þar er ekkert ferðaveður.

Veður hefur tafið mokstur á Hellisheiði

Dimm él á heiðinni

7.2.2022

Hellisheiðin hefur verið lokuð í dag, mánudaginn 7. febrúar, vegna vonskuveðurs og verður ekki opnuð fyrr en á morgun, þriðjudag. Fólk er beðið um að fylgjast vel með fréttum af veðri og færð.

Mikill vindur og skafrenningur er á Hellisheiði og veðurspá fyrir kvöldið er slæm. Dimm él hafa gengið yfir, að sögn Ágústs Sigurjónssonar, yfirverkstjóra á Suðursvæði Vegagerðarinnar.

„Áhersla er lögð á að halda veginum um Þrengslin og Sandskeiðið opnum og umferð er því beint þangað. Veðrið á þeim slóðum er heldur skárra en á Hellisheiðinni en það getur hins vegar breyst fljótt. Fólk er því beðið um að fylgjast vel með fréttum af færð og veðri,“ segir Ágúst.

Í dag hefur verið unnið hörðum höndum að því ryðja veginn um Hellisheiði með snjóblásurunum og veghefli, en vegna snjókomu og vinds er ekki hægt að opna veginn eins og stendur. 

„Fastir bílar geta tafið mjög fyrir snjómokstri og seinkað því að hægt sé að opna vegi fyrir umferð þegar veður gengur niður, því þá þarf að byrja á því að draga þá í burtu,“ segir Ágúst. 

Allir sem þurfa að vera á ferðinni ættu að fylgjast vel með upplýsingum á vef Vegagerðarinnar, á Twitter-síðu Vegagerðarinnar og hjá umferðarþjónustunni í síma 1777.