Fréttir
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Gríðarlegur samdráttur umferðar á Hringvegi

fjórum sinnum meiri samdráttur en áður hefur mælst

1.9.2020

Umferðin í ágústmánuði á Hringveginum dróst saman um 12 prósent miðað við umferð í sama mánuði í fyrra. Ekki hefur áður mælst viðlíka samdráttur í umferðinni í ágúst en þetta er ríflega fjórum sinnum meiri samdráttur en áður hefur mælst mestur. Útlit er fyrir að umferðin dragist saman um 12 prósent í ár sem er gríðarlega mikill samdráttur á milli ára. 

Milli mánaða 2019 og 2020
Umferðin yfir 16 lykilteljara á Hringvegi dróst saman um tæp 12% í nýliðnum ágúst borið saman við sama mánuð á síðasta ári.  Þetta er langmesti samdráttur sem mælst hefur á milli ágústmánaða, eða um fjórum sinnum meiri munur en áður hefur mælst.  

Umferð dróst saman í öllum landssvæðum og mest yfir mælisnið á Austurlandi eða um rúmlega 27% en minnst yfir mælisnið á og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um tæp 6%.

Öll mælisnið sýndu samdrátt og það varð rúmlega 46% samdráttur um mælisnið á Mýrdalssandi en minnst dróst umferð saman yfir mælisnið við Úlfarsfell eða um tæp 4%.

SamantektartaflaFrá áramótum

Nú hefur umferðin dregist saman um 12% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Þetta er ríflega tvisvar sinnum meiri samdráttur en áður hefur mælst á þessum árstíma.

Umferð hefur dregist mikið saman á öllum landssvæðum en mestur hefur samdrátturinn orðið á Austurlandi eða rúmlega 26% samdráttur en minnstur á og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða tæp 6%.

Umferð eftir vikudögum
Líkt og búast mætti við hefur umferðin dregist saman í öllum vikudögum, þegar horft er á tímabilið frá áramótum og það borið saman við sama tímabil á síðasta ári.  Hlutfallslega hefur mælst mestur samdráttur á sunnudögum en minnstur á þriðjudögum. 

Frá áramótum hefur mest verið ekið á föstudögum og minnst á laugardögum.

Horfur út árið 2020
Núna þegar þrír umferðarmestu mánuðir ársins eru liðnir hefur óvissan um framhaldið á Hringvegi lítið minnkað vegna kórónuveirunnar. Horfur út árið benda til ekki minni samdráttar en verið hefur síðan júlítölur voru birtar og nú stefnir í um 12% samdrátt, haldi einkenni umferðar sér líkt og í meðalári.

Talnaefni