Fréttir
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Umferðin uppsafnað
  • Covid Umferðin á Hb vikuleg 44
  • Covid umferðin það sem af er ári 02.11.2020
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Gríðarlegur samdráttur í umferð í október

20 prósenta minni umferð

2.11.2020

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í október dróst sama um 20 prósent miðað við sama mánuð í fyrra og kemur til af auknum takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins. Samdrátturinn er eigi að síður ekki jafn skarpur og hann var í vor. Í síðustu viku var ekið örlítið meira en í vikunni áður en samdrátturinn frá því í sömu viku og fyrir ári er mjög mikill.

Milli mánaða 2019 og 2020
Umferðin í nýliðnum mánuði, yfir 3 lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, reyndist 20% minni en í sama mánuði á síðasta ári.  Þessi samdráttur er gríðarmikill en kemur ekki á óvart í ljósi ástandsins og einnig hefur Vegagerðin fylgst vikulega með umferðinni um þessi snið í október og komið þeim upplýsingum á framfæri á heimsíðu Vegagerðarinnar. 

Umferðin dróst mest saman um mælisnið á Hafnarfjarðarvegi eða um rúmlega 28% en minnst dróst umferðin saman um Reykjanesbraut eða um rúmlega 15%. 

Hér hefur áður verið rætt um hvers vegna snið á Hafnarfjarðarvegi leiðir samdráttinn, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og jafnvel ár eftir ár, án þess að það hafi verið rannsakað sérstaklega. Þessi þróun er nefnilega ekki alveg ný af nálinni, þó hún hafi ekki verið svona mikil fyrr, og því varla hægt að kenna Covid-faraldri einum og sér um þennan mikla mun á umræddu sniði og hinum.  Hér geta svo sem verð fleiri en ein skýring á.  En ljóst má vera að eitthvað er að gerast í umferðarmynstri/hegðun varðandi leiðaval á höfuðborgarsvæðinu.  Ýmsar tilgátur hafa verið á lofti og mætti hér nefna nokkrar: 

  • Ökumenn upplifi að ein eða fleiri gatnamót séu sprungin.
  • Mögulega er aldurssamsetning íbúa í hverfum, sem fæða þessa leið, að breytast og eldri íbúum að fjölga.
  • Loks kann það að vera að ímynd þessarar leiðar, í hugum ökumanna, sé sú að aðrar leiðir séu greiðfærari sbr. fyrsti liður hér að ofan. 

Umferð eftir vikudögum
Af virkum dögum var mest ekið á föstudögum en minnst á miðvikudögum. Þegar öll vikan er skoðuð yfir lengra tímabil er það regla að minnst sé ekið á sunnudögum.     

Horfur úr árið 2020
Nú er reiknað með 5 – 10% samdrætti, í umferð, í síðustu tveimur mánuðum ársins og þá gæti umferð á höfuðborgarsvæðinu dregist um 9,5% fyrir árið í heild. Ef þetta gengur eftir er það mesti samdráttur, í umræddum sniðum, frá því að þessi samantekt hófst.

Covid-19
Ef síðasta vika er skoðuð, fyrir umrædd snið, þá kemur í ljós að umferðin í síðustu viku eða viku 44 reyndist 1,2% meiri en í viku 43. Þetta eru svipuð einkenni og voru í umferðinni á síðasta ári. Ef vika 44 er hins vegar borin saman við sömu viku á síðasta ári reyndist hún vera rúmlega 21% minni. Þetta er mun minni samdráttur en varð í bylgju eitt en þá fór samdráttur mest í tæp 43% milli ára í sömu vikum.  Það er athugunarvert að samdrátturinn nú er miklu minni þrátt fyrir að smitin séu útbreiddari og meiri, í samfélaginu. Kann þetta að vera samspil öðruvísi sóttvarna og e.t.v. farsóttarþreytu, sem lýst gæti sér í því að samfélagið sé ekki eins reiðubúið að hægja á sér nú og í vor.

Af einstaka sniðum þá dróst umferðin mest saman um snið á Hafnarfjarðarvegi, við Kópavogslæk, eða um 28% en minnst um snið á Reykjanesbraut eða um 17,5%.

Talnaefni