Fréttir
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Gríðarlegur samdráttur í umferð á Hringvegi í september

sjöfalt meiri samdráttur en áður hefur mælst

5.10.2020

Umferðin á Hringvegi í september dróst saman um heil 16,3 prósent sem er sjöfalt meiri samdráttur en áður hefur mælst. Þannig að um gríðarlega mikinn samdrátt er að ræða. Hér stýrir kórónufaraldurinn för og fækkun ferðamanna enda hefur umferð á ferðamannaleiðum dregist saman um t.d. 75 prósent á Hringvegi í Lóni. Þar munar væntanlega mestu um ferðamennina. Útlit er fyrir 11-12 prósenta samdrátt í ár, sem hefur ekki áður mælst svo mikill. 

Milli mánaða 2019 og 2020
Gríðarlegur samdráttur varð í umferð í nýliðnum septembermánuði borið saman við sama mánuð á síðasta ári, um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, eða 16,3% samdráttur.  Þetta er langstærsti samdráttur, milli septembermánaða, í umræddum mælisniðum. Áður hafði mest mælst 2,6% samdráttur milli áranna 2007 og 2008.  Þetta er því tæplega sjöfalt meiri samdráttur en áður hefur mælst.  Leita þarf aftur til ársins 2015 til að finna minni umferð í september á Hringvegi.

Samdráttur varð í öllum landssvæðum en mest dróst umferð saman um mælisnið á Austurlandi eða um tæp 49% en minnst við höfuðborgarsvæðið eða tæp 4%.

Af einstaka mælisniðum, er það að frétta að 75% samdráttur varð um Hringveg í Lóni en minnst dróst umferð saman á Hringvegi við Úlfarsfell eða um rétt rúmlega 1%.

Samantektartafla


Frá áramótum
Nú hefur umferðin, í umræddum mælisniðum, dregist saman um 12,5%, frá áramótum, miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Hér er sömuleiðis um nýtt met í samdrætti að ræða miðað við árstíma þar sem áður hafði mest mælst 5,2% samdráttur á sama tíma milli áranna 2010 og 2011.  Þessi samdráttur nú er meiri en tvöfalt meiri en áður hefur sést.

Mest hefur umferðin dregist saman á Austurlandi eða um 28,5% en minnst við höfuðborgarsvæðið eða um 5,6%.

Umferð vikudaga, frá áramótum
Umferð hefur dregist saman í öllum vikudögum en hlutfallslega mest á sunnudögum eða um 17% en minnst á þriðjudögum eða um 11,5%.  Mest er ekið á föstudögum og minnst á mánudögum - það sem af er ári.

Horfur út árið 2020
Nú stefnir í met samdrátt, milli ára,  á Hringvegi eða 11 - 12%.  Mesti samdráttur á umræddum mælisniðum hefur, fram til þessa, verið milli áranna 2010 og 2011 eða 5,3% samdráttur. Þannig nú stefnir í rúmlega tvöfalt stærri samdrátt á Hringvegi, en áður hefur mælst.

Talnaefni