Gríðarlegur samdráttur í umferð á Hringvegi í apríl
Samdrátturinn nemur 35 prósentum
Samdrátturinn í umferð á Hringvegi í apríl slær öll met. Umferðin í mánuðinum drógst saman um nærri 35 prósent sem í sögulegu samhengi er gríðarlega mikill samdráttur. Nú hefur umferðin dregist saman um nærri 18 prósent á Hringveginum frá áramótum sem er líka met. Mest hefur umferðin dregist saman á Mýrdalssandi eða um tæp 80 prósent og verður að leiða lýkur að því að þar muni mestu um ferðamennina.Milli
mánaða 2019 og 2020
Segja má að
umferðin í nýliðnum mánuði, um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi,
hafi dregist það mikið saman miðað við sama mánuð á síðasta ári að kalla mætti að hún
hafi hrunið. Umferðin drógst saman um tæp 35% í apríl mánuði miðað við sama mánuð á
síðasta ári. Svona miklar samdráttartölur hafa ekki sést áður, ekki síðan
þessi samantekt hófst. Til að gefa hugmynd um stærðargráðuna þá er þessi
samdráttur sex sinnum meiri en í efnahagskreppunni fyrir 10 árum síðan.
Mest dregst umferðin saman á Norðurlandi eða um tæplega 60% en minnst um teljara á og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 23%. Fyrir einstaka staði þá er samdrátturinn mestur um Hringveginn á Mýrdalssandi eða samdráttur upp á tæp 80% þ.a.l. var umferðin um Mýrdalssand í apríl rétt um 1/5 af því sem hún var fyrir ári síðan. Minnst dregst umferðin saman um mælisnið Vegagerðarinnar við Úlfarsfell eða um tæp 20%, sem hefði vel dugað í sögu til næsta bæjar ef þetta hefði verið mesti samdrátturinn.

Frá
áramótum milli áranna 2019 og 2020
Nú hefur
umferð dregist saman um 17,5% frá áramótum sem er rúmlega tvöfalt meira en
áður hefur nokkurn tímann verið mælt miðað við árstíma, þ.e.a.s. síðan þessi samantekt
hófst fyrir um einum og hálfum áratug.
Mest hefur umferð dregist saman um Norðurland eða um tæp 34% en minnst um mælisnið á og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um tæp 11%.
Umferð
vikudaga frá áramótum
Eins og
geta má nærri um hefur umferð allra vikudaga dregist mikið saman en hlutfallslega
mest á sunnudögum eða um tæp 27% en minnst á þriðjudögum eða um rúmlega 13%.
Mest hefur verið ekið á föstudögum en minnst á sunnudögum, sem er breyting frá fyrra ári þar sem þriðjudagar eru gjarnan lægstir í umferðinni um Hringveginn.
Horfur
út árið 2020
Ekki er
gott að segja til um horfur að þessu sinni þar sem það skortir fordæmi fyrir svona
hegðun í umferðinni, því er eingöngu hægt að segja að hegði umferðin sér líkt
og í venjulegu ári hér eftir þá gæti hún dregist saman um tæp 19% miðað við síðasta
ár. Ef landinn hins vegar ferðast mikið innanlands, eins og gerðist árið
2009 og hvatt er til af stjórnvöldum, gæti samdrátturinn orðið minni. En það
sem er öðruvísi nú miðað við árið 2009 er að þá voru ekki höft á samkomum og
atvinnuleysi mun minna en nú. Þessi tvö atriði gætu haft letjandi áhrif á
ferðalöngun Íslendinga. Það er því mikil óvissa framundan um það hvað gerist
í umferðinni í sumar.