Fréttir
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Gríðarlegur samdráttur í umferð á höfuðborgarsvæðinu í ár

Umferðin í september mun minni en fyrir ári þótt hún sé meiri en í ágúst

1.10.2020

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í september dróst saman um 4,4 prósent frá sama mánuði í fyrra. Þótt umferðin sé meiri en í ágúst er þetta mikill samdráttur í mánuðinum. Frá áramótum nemur samdrátturinn ríflega átta prósentum og það stefnir í algeran metsamdrátt í umferðinni í ár eða meira en þrisvar sinnum meiri samdrátt en áður hefur mælst.

Milli mánaða 2019 og 2020
Umferðin, um þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, í nýliðnum september reyndist 4,4% minni en í sama mánuði á síðasta ári en engu að síður var umferðin 4,9% meiri en í nýliðnum ágúst.  Þetta er met samdráttur milli september mánaða því mesti samdráttur, sem áður hafði mælst milli september mánaða, var 3,6% milli áranna 2008 og 2009.

Leita þarf aftur til ársins 2016 til að finna minni umferð í september.  Mest dróst umferðin saman á Hafnarfjarðarvegi eða um 8,7% en lítilsháttar aukning varð í mælisniði á Reykjanesbraut eða 0,1% aukning.

Nú er útlit fyrir að apríl mánuður í ár verði lang umferðarminnsti mánuður ársins og nýliðinn júní sá umferðarmesti.  Munur á umferð milli þessara tveggja mánaða eru heil 47%.

Frá áramótum
Nú hefur umferðin dregist saman um 8,2%, frá áramótum, miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Þetta er met samdráttur miðað við árstíma og næstum þrisvar sinnum meiri en áður hefur mælst, en það var milli áranna 2008 og 2009.

Umferð vikudaga
Umferð dróst saman í öllum vikudögum septembermánaðar en mest á sunnudögum eða um 15,2% en minnst á miðvikudögum eða um 2,6%. Bíllausa daginn 20. september bar upp á sunnudag og reyndist umferðin þann dag vera 10,7% minni en á meðalsunnudegi í september.

Horfur út árið 2020
Nú stefnir í að umferðin árið 2020, í lykilmælisniðunum þremur, verði 8,0% minni en hún var árið 2019. Gangi þetta eftir er þetta lang mesti samdráttur sem Vegagerðin hefur mælt í umræddum mælisniðum, en áður hafði mælst 2,4% samdráttur milli áranna 2008 og 2009 þannig hér stefnir í þrisvar sinnum meiri samdrátt og þriðjungi betur en áður hefur mælst.