Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Gríðarleg aukning umferðar á höfuðborgarsvæðinu í október

51 milljón ökutæki fóru um mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári

2.11.2017

Umferðin um þrjú mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu jókst um ríflega níu prósent í nýliðnum október og hefur ekki aukist jafnmikið síðan árið 2007. Umferðin í ár hefur aukist um heil 8,5 prósent sem þýðir að alls hafa 51 milljón ökutækja farið um mælisniðin þrjú á 10 mánuðum. Það stefnir í að umferðin aukist um átta prósent í ár sem er gríðarlega mikil aukning.

Milli mánaða 2016 og 2017
Líkt og á Hringvegi jókst umferðin á höfuðborgarsvæðinu gríðarlega mikið í nýliðnum október, borið saman við sama mánuð á síðasta ári, eða um 9,1%. Þetta er mesta aukning á milli október mánaða síðan árið 2007 en þá jókst umferðin um 11% miðað við árið þar áður.

Umferð jókst mest um mælisnið á Reykjanesbraut eða um 13,2% en minnst jókst umferðin á Hafnarfjarðarvegi eða um 6%.

Frá áramótum milli áranna 2016 og 2017
Umferð hefur aukist um 8,5% frá áramótum og er þetta mesta aukning miðað við árstíma síðan árið 2007.

Alls hafa farið tæplega 51 milljón ökutækja um sniðin þrjú, frá áramótum.

Umferð eftir vikudögum
Umferðin í október var mest á föstudögum og minnst á sunnudögum. Hlutfallslega jókst umferðin í október mest á miðvikudögum miðað við árið á undan eða um 15% en minnst jókst umferðin þriðjudögum eða um 6,5%.  

Horfur út árið 2017
Hegði umferðin sér svipað og undanfarin ár stefnir í 8% um mælisniðin þrjú miðað við síðasta ár. Gangi þetta eftir yrði það næst mesta aukning sem orðið hefur frá upphafi þessarar samantektar því aðeins árið 2007 hefur mælst meiri hlutfallsleg aukning eða 9,1% aukning.

Talnaefni