Fréttir
  • Gosumferð til 15.4 Suðurstrandarvegur
  • Gosumferð til 15.4 Grindavíkurvegur
  • Gosumferð til 15.4 Reykjanesbraut
  • Gosumferð til 15.4 meðaldreifing

Gríðarleg gosumferð á Suðurstrandarvegi - um 500 prósenta aukning

eftir að Suðurstrandarvegur opnaði fyrir umferð á gosstöðvarnar

16.4.2021

Umferðin um Suðurstrandarveg eftir að hann opnaði eftir að gos hófst í Geldingadölum 19. mars jókst um nærri 500 prósent. Einnig hefur verið mikil aukning á umferð um Grindavíkurveg og Reykjanesbraut þær fjórar vikur sem gosið hefur staðið og skýrist af gríðarlegur áhuga á að heimsækja gosstöðvarnar.

Vegna gossins, sem hófst í Geldingadölum 19. mars sl. hefur umferðardeild Vegagerðarinnar, til fróðleiks og upplýsinga, skoðað umferð um Reykjanesbraut á Strandarheiði, Grindavíkurveg við Þorbjörn og Suðurstrandarvegi við Festarfjall, á tímabilinu 15. mars til og með 15. apríl. 

Um kvöldið 19. mars varð skyndileg og mikil aukning í umferð á Grindavíkurvegi (og fleiri stöðum þar í grennd) sem rekja má til áhuga landsmanna á nýju gosi í Geldingadölum.  Við þessa lauslegu athugun kemur í ljós að stærsti einstaki umferðardagur (á umræddu tímabili) um Reykjanesbraut (17.500)  og Grindavíkurveg (8.000) var 30. mars en stærsti umferðardagur um Suðurstrandarveg (4.300) var 2. apríl.  En Suðurstrandarvegur var lokaður frá kvöldi 18. mars og til 23. mars.  Þegar umferðin um þessa þrjá staði er skoðuð eru einkennin svipuð þó umferðin sé mismikil, eins og sést á meðfylgjandi myndum.

Umferðartölur fyrri ára á umræddum stöðum gera Vegagerðinni kleift að áætla hver ,,venjubundin“ umferð hefði verið á þessu tímabili ef ekkert gos hefði verið og þá kemur í ljós að umferðin gæti hafa aukist um 21% á Reykjanesbraut, 73% á Grindavíkurvegi og 484% á Suðurstrandarvegi, á umræddu tímabili.

Einnig var áætlað hvernig gos-umferðin dreifir sér yfir sólarhringinn, að meðaltali, og  þá kemur í ljós að einhver gos-umferð er jafnan allan sólarhringinn en segja má að hún byrji að aukast upp úr hádegi og nái hámarki á tímabilinu 16:00 – 18:00 og frá 22:00 – 24:00, sbr. meðf. stöplarit.

Gosumferð til 15.4 stöplarit-b