Fréttir
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Gríðarleg aukning á höfuðborgarsvæðinu í umferðinni

Í júní fóru um 169 þúsund ökutæki daglega um þrjú mælisnið Vegagerðarinnar

4.7.2017

Umferðin í júní á höfuðborgarsvæðinu jókst um 10,5 prósent sem er gríðarlega mikil aukning og nú fóru um 169 þúsund ökutæki um svæðið á hverjum sólarhring í mánuðinum. Þau hafa ekki áður verið fleiri. Mest varð aukningin á mælisviði á Reykjanesbraut og verður að telja líklegt að þar sé um ræða áhrif frá opnun Costco. Búast má við að umferðin í ár aukist um nærri átta prósent.

Milli mánaða fyrir árin 2016 og 2017
Umferðin í nýliðnum júní jókst um 10,5% miðað við sama mánuð á síðasta ári. Þetta er gríðarlega mikil aukning þegar horft er til fjölda þeirra bíla sem þarf til að kalla fram slíka aukningu en það þarf rúmlega 16 þúsund ökutæki á sólarhring, fyrir mælisniðin þrjú.  Heildar umferð á sólarhring í júní sl. varð því tæplega 169 þúsund ökutæki á sólarhring  en það er mesta umferð sem mælst hefur í einstaka mánuði í þessum mælisniðum.

Að fenginni reynslu má búast við því að umferðin í júlí og ágúst verði minni en hæglega getur nýtt met litið dagsins ljós í september nk. og 170 þúsund bíla múrinn verði rofinn.

Umferðin jókst mikið í öllum mælisniðum en mest varð þó aukningin um mælisnið á Reykjanesbraut eða 12,5% aukning, en þar um fer a.m.k. einhver hluti umferðar til og frá Costco. 

Frá áramótum fyrir árin 2016 og 2017
Fyrir umrædd mælisnið hefur umferðin aukist um tæp 9% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Árið 2007 hafði umferðin aukist um 7,3% á sama tíma þ.a.l. er þessi mikla aukning nú met frá því að þessi samantekt hófst (2005).

Umferð eftir vikudögum fyrir árin 2016 og 2017
Í júní sl. var mest ekið á föstudögum en minnst á sunnudögum. Umferðin jókst hlutfallslega mest á föstudögum eða um 15,8% en minnst jókst umferðin á mánudögum eða um 6,1%. 

Horfur út árið 2017
Nú benda líkur til þess að umferðin á þessu ári geti aukist um 7,5 – 8% miðað við árið 2016. Slík aukning myndi þó ekki duga til að slá gamla metið frá árinu 2007 en þá jókst umferðin um 9,1% milli ára, í umræddum mælisniðum.

Talnaefni