Fréttir
  • Hér sjást bæði nýja brúin og sú gamla.
  • Tilvonandi brú yfir Dimmu.
  • Hér má sjá hvernig brúin mun líta út.
  • Teikning af nýrri brú yfir Dimmu.
  • Gamla göngubrúin er illa farin og illfær.
  • Gamla göngubrúin er komin til ára sinna.

Göngu- og hjólabrú yfir Elliðaár við Dimmu

Timburbrú í þremur höfum

16.5.2022

Hluti framkvæmda við nýjan Arnarnesveg felst í gerð göngustíga og nýrrar brúar yfir Elliðaár við Dimmu. Um er ræða mikla samgöngubót fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Forhönnun brúarinnar gerir ráð fyrir timburbrú í þremur höfum og þess er sérstaklega gætt að hún falli vel að umhverfinu. Nýir göngu- og hjólastígar eru hluti af stofnstígakerfi höfuðborgarsvæðisins og verða aðskildir fyrir gangandi og hjólandi.

Elliðaárnar koma úr Elliðavatni og renna um land Kópavogs og Reykjavíkur. Þær hafa löngum talist ein af helstu perlum höfuðborgarsvæðisins, ekki síst vegna þess að í árnar gengur lax en það þykir einstakt á heimsvísu í miðri borg. Sá hluti Elliðaáa sem rennur vestan Víðivalla heitir Dimma, en áin ber Dimmunafnið allt frá Selásfossi ofan við Vatnsveitubrú að Elliðavatnsstíflu.   

Núverandi brú yfir Dimmu er barn síns tíma. Um er að ræða gamla lagnabrú fyrir vatns- og hitaveitu og sitt hvoru megin við hana þarf að ganga upp þröngar og nokkuð brattar tröppur sem reynst hafa mörgum farartálmi. Yfir vetrartímann hefur fólk átt í erfiðleikum með að fara um brúna, ekki síst með vagna, kerrur eða hjól og því löngu orðið tímabært að byggja nýja brú sem stenst nútímakröfur. 

Við forhönnun nýrrar brúar er gert ráð fyrir lágreistri brú með aðskildum stígum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Tekið er mið af viðkvæmri staðsetningu yfir Elliðaárnar og sérstaklega hugað að því að brúin falli vel inn í landslagið. Við hönnunina er tekið tillit til þeirra sem nota Elliðaárdalinn til útivistar og afþreyingar, sem og þeirra sem veiða í ánum og því er aðgengi undir brúna tryggt. Gerðar verða kröfur til verktaka sem koma að byggingu brúarinnar varðandi verklag við byggingu hennar og umgengni við ána. 

Timburbrú í þremur höfum  

Samkvæmt forhönnun verður brúin í þremur höfum og tré verður aðalbyggingarefni hennar. Vegna þýðingu og sérstöðu Elliðaánna er mikilvægt að brúin sé opin, aðlaðandi og falleg. Notkun á tré í brúna hefur kosti í loftslags- og umhverfissamhengi, þar sem hún bindur koltvíoxíð, auk þess sem brúin verður létt með lítilli eiginþyngd.  

Brúargólfið mun samanstanda af þverspenntri límtrésplötu, 225 mm þykkri. Brúarplatan spannar um 46 m milli landstöpla og er studd á legum í landstöplum og þverbitum á um 8 m millibili. Ystu þverbitar eru studdir á súlum og aðrir þverbitar eru stuttir af límtrésbogum sem brúa Elliðaárnar með um 32 m haflengd. Gert er ráð fyrir fjórum 810 mm háum límtrésbogum.  

Brúin verður um 46 m að lengd, 5,7 m að breidd en þar af verða 2,5 m fyrir gangandi vegfarendur og 3 m fyrir hjólandi. Brúin verður fær þjónustubifreiðum í tengslum við viðhald og snjóruðning.

Handrið á brúnni er létt stál eða ál, 1,4 m hátt með lóðréttum rimlum. Framkvæmdin veitir sjónrænt útsýni frá brúnni yfir umhverfið. Gert er ráð fyrir að klæða burðarbita brúarinnar til að verja þá fyrir sól, veðri og vindum. Ýmsar útfærslur koma til greina í því sambandi, svo sem íslenskt lerki.  

Rekstur, viðhald og ending  

Brúin er samkvæmt forhönnun með þverhalla og langhalla til að tryggja afvötnun. Hún verður nothæf allt árið. Allt stál í brúnni verður ryðfrítt eða galvanhúðað innandyra fyrir uppsetningu til að tryggja lágmarksviðhald og langan líftíma. Timburbrúardekk verður með rakavarnarlagi sem hæfir timburbrú og malbiki. Allar tengingar í timbri verða hannaðar með tilliti til loftunar, auk þess sem tryggt verður að gróður liggi ekki að timbrinu. Brúin er hönnuð fyrir 100 ára líftíma með hæfilegu viðhaldi. Íhlutum og útbúnaði, sem verða fyrir skaða eða skemmdum innan hönnunarlíftíma, verður hægt að skipta út með auðveldum hætti.  

Við brúarsmíðina verður þess gætt að lágmarka allt rask á gróðri og vernda lífríki árinnar svo náttúrulegt ferli truflist ekki um of vegna verkefnisins. Setja má þær kröfur á verktaka að halda öllu raski í lágmarki og halda til haga þeim gróðri og gróðurtorfum sem þarf að fjarlægja af verkstað. Nýta má gróður sem þarf að fjarlægja til að græða upp önnur svæði í Elliðaárdalnum eða við frágang vegna framkvæmdarinnar sjálfrar. 

Gert er ráð fyrir nýjum og endurbættum aðskildum göngu- og hjólastígum sem munu liggja frá brúnni sunnan við Elliðaár til að byrja með en þvera þær svo við Grænugróf og tengjast inn á stíginn norðan megin.  

Eins og áður hefur komið fram er nýja brúin á Dimmu hluti af framkvæmdum við nýjan Arnarnesveg. Framkvæmdir hefjast að öllum líkindum á næsta ári þegar nauðsynleg leyfi frá Fiskistofu og veiðiréttarhöfum liggja fyrir.  

 

Úti Inni Arkitektar og Verkís verkfræðistofa unnu forhönnun brúarinnar í samstarfi við Vegagerðina og Reykjavíkurborg. Baldur Ólafur Svavarsson hjá Úti Inni Arkitektum er arkitekt brúarinnar.