Fréttir
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir vikudögum

Gífurlega mikil aukning í umferðinni árið 2016

tvöfalt meiri aukning en metið frá 2006/2007

2.1.2017

Árið 2016 var algert metár í umferðinni á Hringveginum en umferðin jókst um ríflega 13 prósent sem er gríðarlega mikil aukning á einu ári. Aukningin er nærri tvöföld á við aukninguna sem næst kemur á milli áranna 2006 og 2007 sem var 6,8 prósent. Aldrei fyrr hafa jafnmargir bílar farið um mælipunkta Vegagerðarinnar á Hringveginum. Sama á við um nýliðinn desembermánuð en umferðin jókst um ríflega 21 prósent í mánuðinum og hefur umferð yfir vetrarmánuðina aukist gríðarlega sem líklega má fyrst og fremst rekja til aukinnar vetrarferðamennsku. 

Milli mánaða 2015 og 2016
Umferðin í desember 2016 jókst gríðar mikið en niðurstaðan varð rúmlega 21% aukning árið 2016 miðað við sama mánuð árið 2015.  Þetta er mesta aukning mill desember mánuða frá því að þessi samantekt hófst.  Umferð jókst á öllum landssvæðum en langmest mældist aukningin um mælisnið á Austurlandi eða um tæplega 52%.  Minnst jókst umferð um mælisnið um og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 18%.

Milli áranna 2015 og 2016
Nú þegar árið 2016 er liðið liggur það fyrir að umferðin á Hringvegi, um 16 lykilteljara, jókst um rúmlega 13%.  Aldrei áður hefur umferðin aukist jafn mikið um umrædd mælisnið.  Sem dæmi má taka þá var fyrra met 6,8% en það var á milli áranna 2006 og 2007.  Þessi aukning nú er því tæplega tvöföldun á gamla metinu.

Samanburðartafla

Umferð eftir vikudögum milli áranna 2015 og 2016
Umferðin jókst mest á mánudögum eða 15,3% en minnst var aukningin á föstudögum eða 10,1%.   Umferðin reyndist mest á föstudögum en minnst á þriðjudögum. 

Að lokum
Vafalaust eru nokkrar ástæður fyrir því að umferðin á Hringvegi eykst svona eins og hún hefur gert.  Vegagerðin hefur bent á fylgni umferðar við hagvöxt, aukningu ferðamanna og síðan mætti ímynda sér að góð færð á vegum yfir vetrarmánuði hafi mikið að segja.  Þetta kunna að vera þrjár meginástæður fyrir þessari miklu aukningu á síðasta ári.  Það verður því afar fróðlegt að fylgjast með þróuninni á þessu ári og sjá hvort þessi mikla aukning haldi áfram eða hvort það hægi á henni.

Talnaefni