Fréttir
  • Landrof við Raufarhöfn.
  • Frá höfninni á Ólafsfirði.
  • Fannar Gíslason, forstöðumaður hafnadeildar Vegagerðarinnar.
  • Sjór gengur yfir grjótgarða á Bakkafirði.
  • Varðskipið Þór var tengt við rafstöð í höfninni á Dalvík þegar rafmagnsleysi var viðvarandi í vetur.
  • Töluvert landrof varð við Raufarhöfn.

Gert við skemmdir á hafnarmannvirkjum í sumar

Mikið verk framundan eftir óveður vetrarins

27.4.2020

Töluverðar skemmdir urðu á hafnarmannvirkjum umhverfis landið í óveðrum vetrarins. 750 milljónum króna hefur verið úthlutað til hafnarframkvæmda í tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisins. Þá verður 100 milljónum varið til óveðurstengdra verkefna hjá hafnadeild Vegagerðarinnar. Upplýsingakerfi um veður og sjólag verður uppfært en möguleiki er að spá fyrir um viðlíka aðstæður og mynduðust í byrjun desember á síðasta ári og auðvelda þar með líf viðbragðsaðila.

„Skemmdir á ytri hafnarmannvirkjum og sjóvörnum hafa verið metnar á 300 milljónir króna,“ segir Fannar Gíslason forstöðumaður hafnadeildar Vegagerðarinnar. Hann bendir þó á að ekki séu öll kurl komin til grafar varðandi skemmdir á hafnarmannvirkjum eftir óveður vetrarins og líklegt að ýmislegt uppgötvist ekki fyrr en veturinn sleppir tökum sínum. „Við erum reglulega að fá tilkynningar um ýmis tjón.“

Mestu skemmdirnar urðu á norðanverðu landinu og spilaði óveðrið í byrjun desember þar mestu en aðstæður voru, eins og svo margt þennan veturinn, fordæmalausar. Spiluðu þar saman nokkrir þættir. „Sjávarstaða var há, en þó ekki hærri en áður hefur sést. Hins vegar var loftþrýstingurinn ákaflega lágur og þegar loftþrýstingur lækkar er mótstaða minni sem verður til þess að sjórinn hækkar. Það kallast áhlaðandi. Áhlaðandinn í þessu tilviki var rúmlega meter,“ lýsir Fannar. Sjórinn hækkar um 1 cm fyrir hvert millibar. Loftþrýstingur á þessum tíma var 930 millibör en er venjulega 1013.

Við þetta bættist að aldan var einnig há. „Þegar sjávarhæð hækkar ná hærri öldur að fara óbrotnar að landi og sjórinn nær á staði sem hann hefur aldrei farið áður. Í sumum fjörðum voru aðstæður líka þannig að þeir mynduðu hálfgerða trekt fyrir öldur,“ segir Fannar og bætir við að í vetur mældi öldudufl yfir 12 metra ölduhæð fyrir norðan.

Þær hafnir sem eru staðsettar í fjörðum sem snúa til  norður fóru verst út úr veðrinu í byrjun desember. Þar má nefna hafnirnar í Ólafsfirði, Bakkafirði og Raufarhöfn. Slæm veður gerði einnig í janúar og febrúar. „Ölduhæðin var þá ekki jafn há en mjög stórstreymt og loftþrýstingur minni en við höfum séð,“ lýsir Fannar. Í þessum aðstæðum flæddi mikið á Sauðárkróki og olli þó nokkru tjóni. „Síðan kom mjög sterk austanátt sem myndaði mjög mikla vindöldu á Faxaflóa. Með því og hárri sjávarstöðu fór allt á kaf á Suðurnesjunum.“

Í tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisins var ákveðið að veita 750 milljónum króna til hafnarframkvæmda. Hluti þess penings fer í að laga þær skemmdir sem urðu í óveðrum vetrarins. 224 milljónir eru til dæmis áætlaðar í grjótverkefni sem snúa beint að því að laga hafnarmannvirki. Hluta þess fés er enn óráðstafað enda talið ljóst að enn eigi eftir að koma í ljós ýmsar skemmdir.

Hafnadeildin er komin vel á veg með að undirbúa öll verkefnin sem snúa að viðgerðum á hafnarmannvirkjum eftir óveðrin. Sum eru í hönnunarfasa en önnur verða boðin út á næstunni.

Aukin áhersla á hafna- og strandrannsóknir

Í fjárfestingarátaki ríkisins er gert ráð fyrir að verja 150 milljónum króna í óveðurstengd verkefni. Þar af fékk hafnadeildin 100 milljónir. 40 milljónir fara í endurnýjun öldudufla, aðrar 40 í mælingar á sjávarhæð og 20 milljónir verða notaðar til að uppfæra upplýsingakerfi um veður og sjólag. „Veðrið kenndi okkur mikilvægi þess að halda áfram hafna- og strandrannsóknum. Með því að betrumbæta upplýsingakerfi um veður og sjólag verður vonandi hægt  að spá fyrir um atburði eins og urðu í vetur með smá fyrirvara. Með því að vita fyrirfram að slæmar aðstæður séu að skapast er hægt að vara íbúa á strandsvæðum við svo samfélögin þar geti undirbúið sig betur,“ segir Fannar. Í samtölum hans við viðbragðsaðila eftir óveðrin í vetur kom skýrt fram sú ósk að fá upplýsingar um óvenjulegar aðstæður með góðum fyrirvara. „Vonandi tekst okkur að byggja upp slíkt spától á vefnum Veður og sjólag. Vonir standa til að geta útfært vefinn með Veðurstofu Íslands.“ Fannar bendir á að slík upplýsingakerfi séu mikilvægur hlutur af almannavörnum og geti þegar upp er staðið bjargað töluverðum verðmætum.

Stór verkefni í sumar

Viðgerðir og framkvæmdir við hafnir eru samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Þannig standa sveitarfélögin straum af kostnaði sem nemur 25 til 40 prósentum. Stærstu verkefnin sem ráðist verður í þetta sumar eru þessi:

Dýpkun Þórshafnar: Mikil uppsjávarvinnsla er á Þórshöfn. Þar sem nýrri skip útgerða eru að verða stærri og djúpristari þarf höfnin að geta uppfyllt lágmarkskröfur um dýpi innan hafnar. Því verður farið í hálfgerða neyðardýpkun í höfninni og dýpi tekið niður í níu metra svo stærri skip geti með öruggum hætti siglt inn í höfnina.

Þorlákshöfn: Mikil umsvif eru vegna fraktflutninga í Þorlákshöfn og stefnt að enn viðameiri fraktflutningi í framtíðinni. Til þess að geta annað þessari eftirspurn þarf að gera talsverðar breytingar á höfninni. Til stendur að reka nýtt stálþil við Suðurvararbryggju og breyta einnig stefnu hennar svo beygjusvæði innan hafnar verði aukið. Dýpka þarf framan við nýjan hafnarkant niður í níu metra. Hluti af þessu verkefni er fjármagnaður af fjárfestingarátaki ríkisins.

Sjóvarnir og grjótgarðar: Mikið mæddi á sjóvörnum og grjótvörnum víða um land í óveðrum vetrarins. Endurbyggja þarf hluta þeirra og hækka aðra þar sem það á við.

Bíldudalur: Vegna mikilla umsvifa í sveitarfélaginu vantar lóðir við höfnina. Til stendur að gera landfyllingu austan hafnar. Þannig getur Kalkþörungaverksmiðjan aukið framleiðslu sína og Arnarlax stækkað sína aðstöðu.

Djúpivogur: Vegna mikilla umsvifa í laxeldi þarf meira uppland og stærri viðlegukant við höfnina. Til stendur að flýta framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru 2022. Þá verða framkvæmdir viðameiri og þær teknar í einum áfanga í stað tveggja.

Frumrannsóknir: Til þess að auka þekkingu á veðri og sjólagi og nýta hana við hönnun hafnarmannvirkja þarf að styrkja frumrannsóknir í málaflokknum. Meðal þess sem þarf að skoða betur eru hafnalíkön, hæðarákvarðanir á grjótgörðum og bryggjumannvirkjum.

 

Hafnarframkvæmdir. Verkefni tengd fjárfestingarátaki ríkisins (750 m.kr.)

  • ·         Dýpkun í Sandgerði                                                                                         7 m.kr.
  • ·         Dýpkun við Ólafsvík                                                                                     63 m.kr.
  • ·         Dýpkun við Þorlákshöfn                                                                               34 m.kr.
  • ·         Dýpkun við Þórshöfn                                                                                    22 m.kr.
  • ·         Dýpkun við Súðavík                                                                                      92 m.kr.
  • ·         Grjótverkefni, Bakkafjörður                                                                         41 m.kr.
  • ·         Grjótverkefni, Njarðvík                                                                                  34 m.kr.
  • ·         Grjótverkefni, Keflavík                                                                                  29 m.kr.
  • ·         Grjótverkefni, Sauðárkrókur                                                                        24 m.kr.
  • ·         Grjótverkefni, óráðstafað                                                                             96 m.kr.
  • ·         Landfylling, Bíldudal                                                                                     77 m.kr.
  • ·         Stálþil á Djúpavogi                                                                                       61 m.kr.
  • ·         Sjóvarnir, ýmsir staðir vegna tjóns í óveðri                                             100 m.kr.
  • ·         Hafna- og strandrannsóknir í höfnum                                                       70 m.kr.