Fréttir
  • Sýningin Næsta stopp, verður opnuð í Ráðhúsi Reykjavíkur 16. júní 2020.

Gagnvirk sýning um Borgarlínu

Fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur

16.6.2020

Næsta stopp, gagnvirk sýning um Borgarlínu verður opnuð í Ráðhúsi Reykjavíkur þriðjudaginn 16. júní klukkan 13. Sýningin er hluti af Hönnunarmars 2020 en þar verða kynnt framtíðaráform ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um nýtt samgöngunet.

Á sýningunni verður nýju samgönguneti Borgarlínu, Strætó, hjólastíga og deililausna gerð skil á spennandi hátt og sýnt hvernig Strætó og Borgarlína munu geta spilað saman og hvaða áhrif sú uppbygging muni hafa á kerfi almenningssamgangna á svæðinu. Á sýningunni er upplýsingum um  framtíðarskipan í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu miðlað á skilmerkilegan og skemmtilegan hátt og leikurinn er aldrei langt undan. Næsta stopp er því tilvalinn viðburður fyrir alla fjölskylduna.

Borgarlínan er nýtt samgöngukerfi almenningsvagna sem mun tengja allt höfuðborgarsvæðið saman með hröðum og tíðum ferðum. Samhliða verður þróað nýtt leiðanet almenningssamgangna á svæðinu sem mun tengjast Borgarlínu. Borgarlínuvagnarnir verða drifnir innlendum vistvænum orkugjöfum og munu því styðja við þróun höfuðborgarsvæðisins að kolefnishlutlausu borgarsamfélagi og bættri lýðheilsu. Borgarlínustöðvarnar verða lykilpunktar nýja samgöngunetsins og í kringum þær mun skapast aðstæður fyrir margvíslega verslun og þjónustu. Þar verður góð aðstaða fyrir hjól og hverskonar deilifarartæki sem auðvelda fólki síðasta spölinn.  Um allt þetta verður fjallað á skemmtilegan og spennandi hátt á sýningunni Næsta stopp í Ráðhúsinu.