Fréttir
  • Öryggið var í fyrirrúmi í flutningunum.
  • Skref 1
  • Skref 2
  • Skref 3
  • Skref 4
  • Ekið af stað með viðkvæman farangur.
  • Öryggið var í fyrirrúmi í flutningunum.

Gagnagrunnar Vegagerðarinnar á faraldsfæti

Viðbúnaður þegar gagnagrunnur með nokkrum milljörðum færslna var fluttur til Advania

25.5.2021

UT deild Vegagerðarinnar hefur staðið í stórræðum undanfarið við að flytja alla netþjóna og vélar til Advania. Í síðustu viku var komið að því að flytja tölvur sem geyma alla gagnagrunna stofnunarinnar en þeir eru æði margir. Þar má nefna færðarkort Vegagerðarinnar og fjölmörg kerfi sem halda utan um gögn um námur, slitlög, veggöng, rannsóknir, umferðartalningar, veður og brýr svo fátt eitt sé talið.
Ferlið er viðkvæmt og því var haldin æfing á þriðjudegi en miðvikudaginn 19. maí var komið að alvöru lífsins. Hafist var handa klukkan 11.30 með afritunartöku sem tók dágóðan tíma. Eftir það gekk allt samkvæmt plani. Vélarnar voru færðar inn í hitastýrðan bíl og svo ekið með þær í kerfissal Advania á Steinhellu í Hafnarfirði. Öll öruggustu ökutæki stofnunarinnar voru notuð við flutninginn til að minnka hættu á nokkru hnjaski. Reyndar munaði minnstu að stór malarflutningabíll í framúrakstri á móti umferð keyrði niður bílalestina.

Vélarnar voru settar upp í kerfissalnum og voru komnar í notkun á ný á miðvikudagskvöld. Meðan á flutningnum stóð uppfærðust ekki upplýsingar á færðarkorti Vegagerðarinnar en svo vel vildi til að vel viðraði og flestar leiðir greiðfærar.

Næsta skref er flutningur á eldveggjum og neti. Ákveðið var að þetta yrði gert eftir hvítasunnuhelgina því taka þarf tillit til aukinnar umferðar í göngum um þessa miklu ferðahelgi.

Flutningur tölvukerfa Vegagerðarinnar til Advania hefur staðið til í nokkurn tíma og er upptakturinn að flutningum höfuðstöðva Vegagerðarinnar í Suðurhraun 3 í byrjun júní. Verki UT deildar er því hvergi nærri lokið því næst tekur við að tengja allt kerfið á nýjum stað.

Fyrstu tölvunni smyglað í skjóli nætur

Söfnun gagna á sér langa sögu innan Vegagerðarinnar. Grétar Óli Sveinbjörnsson verkefnastjóri á Upplýsingatæknideild hefur stýrt rekstri gagnagrunns Vegagerðarinnar frá árinu 1997 og þekkir vel söguna. „Fyrsta tölvan var keypt til stofnunarinnar 1. apríl 1977 og var hún af gerðinni PDP-11/34. Hún var aðallega notuð í tækniútreikninga. Raunar var tölvunni smyglað inn í hús í skjóli nætur, sennilega vegna þess að þá mátti engin ríkisstofnun eiga og reka tölvu nem SKÝRR og Háskóli Íslands,“ segir Grétar Óli.

Árið 1996 keypti Vegagerðin Oracle gagnagrunn og hefur hann verið notaður síðan sem aðal gagnagrunnur Vegagerðarinnar. Hann hefur alla tíð verið keyrður innanhúss, fyrst undir VMS stýrikerfi, síðan Windows og loks í Linux.

Árið 1999 var farið að skrá öll gögn frá veðurstöðvum Vegagerðarinnar í Oracle en það var gert vegna breytinga í tengslum við 2000 vandann. Þá varð í fyrsta sinn til tafla í grunninum sem innihélt nokkrar milljónir færslna. „Það þótti gríðarlegt gagnamagn og sumir supu hveljur því á þessum tíma þótti tafla sem innihélt 10.000 færslur stór, jafnvel mjög stór. Núna eru um tveir milljarðar færslna frá umferðargreinum í Oracle, þau gögn ná aftur til 2001. Í veðurgagnatöflunni eru síðan tæplega 200 milljón færslur, þau gögn ná aftur til 1992. Í dag eru nokkurra milljóna færslur af gögnum því enginn stórviðburður.“