Fréttir
  • Stefnt er á að halda áfram að dýpka höfnina í kvöld.
  • Dýpkunarskipið Álfsnes hefur reynst afkastameira en eldri dýpkunarskip.

Fyrirséð röskun á siglingum Herjólfs III

Skipta þarf um spil í Álfsnesi

6.10.2022

Stefnt er að því að hefja dýpkun á ný í Landeyjahöfn í kvöld eftir að bilun kom upp í lyftubúnaði dýpkunarskipsins Álfsness. Búast má við einhverri röskun á siglingum gamla Herjólfs næstu daga og líklegt er að ferjan muni sigla eftir sjávarföllum. Viðgerðir standa nú yfir á Álfsnesi en bilunin kom upp í því í gærkvöldi. Vonast er til að skipið verði komið í lag seinnipartinn í dag.

Við dýpkunina í Landeyjahöfn í gærkvöldi bilaði spilið í Álfsnesi, sem sér um að lyfta dælurörinu. Skipinu var siglt til Vestmannaeyja í viðgerð en þar kom í ljós að það þyrfti meiri viðgerð heldur en vonir stóðu til. Því var ákveðið að sigla til Þorlákshafnar og reyna að ná skipinu í lag eins hratt og hægt er.

Bilunin kemur fram á óheppilegum tíma því dýpi í Landeyjahöfn er ekki nægjanlegt eins og staðan er núna fyrir Herjólf III, en gott fyrir Herjólf IV.  Ljóst er að nýja dýpkunarskipið, Álfsnes, stendur undir væntingum og er töluvert afkastameira heldur en eldri dýpkunarskip sem Björgun efh. hefur notað við dýpkun í Landeyjahöfn.

Herjólfur IV er í slipp 

Gamli Herjólfur, Herjólfur III, leysir Herjólf IV af í siglingum milli lands og Eyja meðan nýja ferjan er í slipp í Hafnarfirði og verður þar næstu 3 vikurnar. Undanfarna viku hefur verið unnið að dýpkun Landeyjahafnar í þeim tilgangi að höfnin geti nýst eldra skipinu, en skipið þarf töluvert meira dýpi en nýi Herjólfur og því þarf að dýpka vel niður fyrir umhverfisdýpi umhverfis höfnina.

Miðað við ölduspá ætti að vera hægt að dýpka höfnina áfram á morgun, föstudag og fram á laugardagskvöld. Ef allt gengur að óskum ætti þá að vera komið gott dýpi í höfninni fyrir Herjólf III.