Fréttir
  • Bjarkalundur---Skalanes

Frummatsskýrsla Vestfjarðavegur (60) milli Bjarkalundar og Skálaness

athugasemdafrestur almennings til 8. desember

25.10.2016

Vegagerðin kynnir frummatsskýrslu vegna framkvæmdar á Vestfjarðavegi (60) á milli Bjarkalundar og Skálaness, vegagerðar í Gufudalssveit sem liggur m.a. um Teigsskóg. Frummatsskýrslan ásamt teikningum og viðaukum er kynnt, frestur til að gera athugasemdir er til 8. desember næst komandi. Sjá frekar í fréttinni.

Vegagerðin tilkynnir hér með 19,9-22,0 km langa vegagerð á Vestfjarðavegi milli Bjarkalundar og Skálaness við norðanverðan Breiðafjörð, framkvæmd sem fellur undir 5. gr. laga nr. 106/2000 m.s.b. um mat á umhverfisáhrifum. Frummatsskýrsla um mat á umhverfisáhrifum, sú sem hér er kynnt, hefur verið send Skipulagsstofnun. Stofnunin kynnir framkvæmdina og frummatsskýrsluna með auglýsingum auk þess sem hún mun liggja frammi til kynningar til 8. desember á bæjarskrifstofu Reykhólahrepps, Hótel Bjarkalundi, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun. Sjá hér að neðan hvert senda skal athugasemdir.

Framkvæmdin er í sveitarfélaginu Reykhólahreppi í Austur-Barðastrandarsýslu. Um er að ræða nýjan veg í stað vegar sem liggur  frá Bjarkalundi, fyrir botn Þorskafjarðar, yfir Hjallaháls, fyrir botn Djúpafjarðar, yfir Ódrjúgsháls og fyrir botn Gufufjarðar að Skálanesi við vestanverðan Þorskafjörð.  Á leiðinni eru fjórar einbreiðar brýr og brattir, krókóttir og snjóþungir kaflar eru um Hjallaháls og Ódrjúgsháls. Um er að ræða seinasta vegarkaflann sem lagður er malarslitlagi á leiðinni milli Reykjavíkur og þéttbýlisstaða á sunnanverðum Vestfjörðum. Núverandi vegur er 41,6 km langur en nýr vegur verður 19,9 - 22,0 km langur, háð leiðarvali.

Vegagerðin leggur fram fimm leiðir til athugunar hjá Skipulagsstofnun, leiðir A1, D2, H1, I og Þ-H. Þær falla saman á köflum.  Við framkvæmdina verða byggðar brýr yfir Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð, háð leiðarvali. Brýr eru mislangar, háð legu vegarins, en lengstu brýrnar eru á leið A1, eða samtals 1.344 m. Stystu brýrnar eru á leið D2, eða samtals 330 m langar. Leiðir D2 og H1 eru jarðgangaleiðir, á leið D2 eru 4,5 km löng jarðgöng og á leið H1 eru 4,1 km löng göng. Framkvæmdin mun ganga undir heitinu:  Vestfjarðavegur (60) milli Bjarkalundar og Skálaness.

Framkvæmdaaðili er Vegagerðin og hefur Norðvestursvæði Vegagerðarinnar umsjón með fyrirhugaðri framkvæmd.

Umsagnir og athugasemdir við frummatsskýrslu skal senda til Skipulagsstofnunar hér skipulag@skipulag.is.

Frestur almennings til að skila inn umsögnum og athugasemdum við frummatsskýrsluna er til 8. desember 2016.

Sjá frummatsskýrslu, samantekt hennar, teikningar og viðauka hér.