Fréttir
  • Hugmyndamynd af Borgarlínu við Hamraborg.
  • Fraumdragaskýrsla Borgarlínunnar.
  • Nýtt leiðarnet Strætó.
  • Tillaga að kjörsniði.
  • Fyrsta lota Borgarlínunnar.
  • Tillaga að gatnamótum.
  • Hugmyndamynd af Borgarlínu við Lækjargötu.
  • Merki Borgarlínunnar

Kynning á frumdrögum fyrstu lotu Borgarlínunnar

Upptaka af kynningafundi sem haldinn var 5. febrúar.

5.2.2021

Frumdrög fyrstu framkvæmdalotu Borgarlínunnar voru kynnt í beinu streymi fyrr í dag. Í frumdrögum eru kynntar fyrstu heildstæðu tillögur að útfærslu borgarlínuframkvæmda, frá Ártúnshöfða að Hamraborg. Kynningunni var streymt beint, meðal annars á facebooksíðu Vegagerðarinnar en við sama tækifæri var opnuð ný og endurbætt vefsíða Borgarlínunnar www.borgarlinan.is.

Árni M. Mathiesen formaður Betri samgangna ohf. bauð fólk velkomið og Davíð Þorláksson framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. lýsti aðkomu félagsins sem mun hafa yfirumsjón með Borgarlínunni og með almennri uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við Samgöngusáttmálann sem gerður var haustið 2019. Næst tók til máls Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar sem greindi frá aðkomu stofnunarinnar en Vegagerðin mun sjá um undirbúning og utanumhald verkefna Borgarlínunnar og samgöngusáttmálans.

Hrafnkell Á. Proppé forsvarsmaður Verkefnastofu Borgarlínunnar fór svo yfir skýrsluna í stórum dráttum.

„Fyrsta framkvæmdalota er um 14 km löng og mun hún annars vegar liggja frá Ártúnshöfða í Reykjavík, yfir nýja brú yfir Elliðaárvog, eftir Suðurlandsbraut að Hlemmi og að Miðborginni og hins vegar frá HÍ, HR og yfir nýja Fossvogsbrú að Hamraborg,“ sagði Hrafnkell.

Vistvæn framtíð vaxandi borgar

Í máli Hrafnkels kom fram að talsverðar breytingar verða á göturými og samgönguskipulagi þar sem umferð gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur verða sett í forgang. Samhliða uppbyggingu á Borgarlínunni er sem dæmi gert ráð fyrir 18 km af nýjum hjólastígum og 9 km af göngustígum. Með breytingu á göturýminu gefst tækifæri til að auka gæði rýmisins, með góðu aðgengi og  aðlaðandi umhverfi að leiðarljósi. Hrafnkell áréttaði að aukin notkun almenningssamgangna og hjólreiða dragi úr bílaumferð og stuðli að minni hljóðmengun, loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda.

Raunhæfir valkostir dreifa álaginu

Í hverri viku fjölgar íbúum höfuðborgarsvæðisins um 90 og spáð er að þeir verði orðnir yfir 300.000 innan tveggja áratuga. Þessari aukningu fylgir meiri umferð. Til að leysa umferðarhnúta framtíðarinnar þarf að styrkja innviði fyrir fjölbreytta ferðamáta, m.a. að byggja upp hágæða almenningssamgöngur sem verða raunhæfur valkostur við einkabílinn.

Egilshöll - Miðborg // Vatnsendi - HÍ

Þegar framkvæmdum við fyrstu framkvæmdalotu lýkur hefst akstur á tveimur Borgarlínuleiðum: Frá Vatnsenda að HÍ annars vegar og frá miðborg að Egilshöll hins vegar. Í skýrslunni er að finna ítarlegar tillögur sem leggja grunn að frekari hönnunarvinnu og því formlega ferli sem er nauðsynlegur undanfari endanlegrar ákvörðunar um framkvæmdirnar.

Frumdragaskýrsluna má nálgast hér.

Kynninguna má finna hér.