Fréttir
  • Með nýjum stíg tengjast gamalgróin hverfi við Leirvogstungu.
  • Nýr stígur við Strandgötu tengist stígum inn á Vellina og upp í Ásland.
  • Lokafrágangur stendur yfir á stíg við Fífuhvammsveg.
  • Nýr hjólastígur í Elliðaárdal liggur frá Höfðabakka að Vatnsveitubrú.
  • Lokafrágangur stendur yfir við Litluhlíð.
  • Vinna við undirgöngin gengur samkvæmt áætlun.
  • Mynd af fyrirhuguðum undirgöngum.

Framkvæmdir vegna göngu- og hjólastíga á góðri siglingu

25.7.2022

Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, segir að framkvæmdir vegna göngu- og hjólastíga á höfuðborgarsvæðinu hafa heilt yfir gengið vel í sumar. „Ég hef fengið jákvæð viðbrögð við þeim og kallað er eftir hraðari uppbyggingu stígakerfisins, ef eitthvað er,“ segir hún.

Um er að ræða stofnnet göngu- og hjólastíga sem heyra undir Samgöngusáttmálann og sveitarfélögin sex á höfuðborgarsvæðinu halda utan um í samstarfi við Vegagerðina. „Uppbygging stígakerfisins er liður í því að auðvelda fólki að komast leiðar sinnar um höfuðborgarsvæðið á hjóli, þar sem öryggi vegfarenda er í fyrirrúmi,“ segir Katrín.

Nýr stígur í Mosfellsbæ

„Búið er að leggja nýjan aðskildan göngu- og hjólastíg með tvístefnu í Mosfellsbæ. Stígurinn liggur nokkurn veginn á milli Varmár og Leirvogstungu og tengir vel saman gamalgróin hverfi við nýja hverfið í Leirvogstungu,“ segir Katrín en umræddur stígur er mikil samgöngubót. Til stendur að vígja hann formlega með pompi og prakt síðar í sumar

Strandgata Hafnarfirði 

Eins og stendur standa yfir framkvæmdir við Strandgötu í Hafnarfirði en þar er verið að leggja aðskilinn göngu- og hjólastíg. „Hann mun tengjast inn á stígakerfi sem liggur inn á Vellina til suðurs og upp í Áslandshverfi til norðurs. Með þessum nýja stíg verður komin samfelld göngu- og hjólaleið frá Völlunum og Áslandi niður í miðbæ Hafnarfjarðar. Búast má við að stígurinn verði tilbúinn með haustinu,“ greinir Katrín frá.  

Fífuhvammsvegur Kópavogi

Í Kópavogi er verið að klára lokafrágang við nýjan, aðskilinn göngu- og hjólastíg með tvístefnu við Fífuhvammsveg, milli Lindavegar og Suðursala, „Sá stígur er eitt skref í því að aðskilja stígakerfið með fram öllum Fífuhvammsvegi en á næstu árum munu framkvæmdir við hann halda áfram,“ segir Katrín.

Nýir göngu- og hjólastígar í Reykjavík 

Í Elliðaárdalnum í Reykjavík er búið að leggja nýjan tvístefnu hjólastíg frá Höfðabakka að Vatnsveitubrú. „Þær framkvæmdur hófust seint á síðasta ári og hafa gengið eftir áætlunum. Þessa dagana er unnið að lokafrágangi við lýsingu við stíginn. Jafnframt er byrjað að undirbúa áframhald á þessari leið sem mun að endingu ná að Breiðholtsbraut,“ segir Katrín.

Að hennar sögn er ráðgert að hefja framkvæmdir við nýja brú yfir Dimmu með haustinu þannig að umræddur stígur mun tengjast stígakerfi við nýjan Arnarnesveg um mislæga lausn yfir Breiðholtsbraut. Kallað hefur verið eftir nýrri brú yfir Dimmu, en sú brú sem fyrir er, er barn síns tíma og var ekki byggð sem göngu- og hjólabrú heldur var hún upphaflega hitaveitustokkur.

Þá eru framkvæmdir í gangi, ofan við Sprengisand, austast á Bústaðavegi. „Þar er verið að byggja undirgöng fyrir gangandi-og hjólandi vegfarendur og samhliða því verða gerðar stígatengingar við nærliggjandi stígakerfi,“ segir Katrín.

Margir hafa beðið óþreyjufullir eftir því að vinnu við undirgöng og stígakerfi ljúki við Litluhlíð en brátt sér fyrir endann á því verki. Stutt er þar til opnað verður fyrir umferð en eins og stendur er þó ekki lokað fyrir umferð og bæði gangandi og hjólandi vegfarendur geta notað stíginn sem þar er búið að leggja. Þessa dagana er unnið við hellufrágang eftir stígnum og það á bæði að þökuleggja og gróðursetja plöntur og tré í brekkunni við stíginn. Katrín segir að undirbúningur á áframhaldandi göngu og hjólaleið eftir Skógarhlíð sé þegar hafinn.

Undirgöng Arnarneshæð í Garðabæ

Loks segir Katrín að framkvæmdir á Arnarneshæð gangi eftir áætlunum. Þar verða byggð undirgöng fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, sem mun bæði tengjast þeim stígum sem fyrir eru á svæðinu og stígum sem fyrirhugað er að leggja á þessum slóðum. „Við hönnun á undirgöngum við Arnarneshæð var lögð mikil áhersla á að útfæra göngin á aðlaðandi máta og þar spilar breidd gangnanna og lofthæð miklu máli til að þau verði sem björtust,“ segir Katrín.