Fréttir
  • Eyjafjarðarleið (F821) opnuð 24.07.2020
  • Eyjafjarðarleið (F821) opnuð 24.07.2020
  • Eyjafjarðarleið (F821) opnuð 24.07.2020
  • Eyjafjarðarleið (F821) opnuð 24.07.2020
  • Eyjafjarðarleið (F821) opnuð 24.07.2020
  • Eyjafjarðarleið (F821) opnuð 24.07.2020
  • Eyjafjarðarleið (F821) opnuð 24.07.2020
  • Eyjafjarðarleið (F821) opnuð 24.07.2020

Fóru í gegnum 7 m háan skafl til að opna Eyjafjarðarleið (F821)

Ekki óvenjulegt að opna svona seint

27.7.2020

Eyjafjarðarleið (F821) á hálendinu var opnuð föstudaginn 24. júlí eða rétt fyrir helgi. Vegagerðarmenn þurftu að fara í gegnum sjö metra skafl til að opna veginn. Skafl sem fyrir leikmenn lætur lítið fyrir sér fara, a.m.k. í fjarskanum. Leiðin er ein þriggja leiða af Sprengisandsleið norðan megin. 

Það tók einn og hálfan dag að moka í gegn um skaflinn sem í reynd er snjóflóð við Hrauntanga á Eyjafjarðardal. Notuð var hjólaskófla, CAT 972 M, sem er 26 tonna vél. Flóðið var 75 metra langt og 7 metrar niður á veg þar sem mest var. 

Þessi kafli hálendisvega var einn síðasti til að verða opnaður en enn er eftir að opna í Fjörður eða veg F839. Það er ekki óvenjulegt að Eyjafjarðarleið opni svona seint að sumri en fyrst hefur leiðin opnast 28. júní, en í síðasta lagi einmitt þennan sama dag og í ár eða 24. júlí, sé tekið mið af opnunum síðustu fimm til sex ára.  

Sjá má á myndunum sem fylgja fréttinni og Grétar Ásgeirsson tók, en hann fór í gegnum skaflinn, að snjóflóðið lætur nú lítið yfir sér í fjarskanum a.m.k. en í reynd voru þessir sjö metrar niður á veginn. Sést vel hvað þetta er gríðarlega mikill snjór og því töluvert verk að komast í gegn.
Aðrar leiðir norður um Sprengisand er Sprengisandsleið (F26) sjálf um Bárðardal og síðan Skagafjarðarleið (F752) sem báðar voru opnaðar töluvert fyrr.