Fréttir
  • Bikblæðingar desember 2020

Fólk fresti för ef kostur er

Þeir sem eiga erindi á milli Borgarness og Akureyrar

15.12.2020

Vegna bikblæðinganna sem eru víða á leiðinni á milli Borgarness og Akureyrar hvetur Vegagerðin almenning til að fresta för um a.m.k. sólarhring er þess er nokkur kostur og fylgjast með framvindunni á morgun og næstu daga. Ef það er ekki mögulegt eru ökumenn hvattir til að aka varlega og eins og alltaf og ætíð eftir aðstæðum.

Vegagerðin hefur einnig óskað eftir því við flutningsaðila, þá sem sinna vöruflutningum og annari umferð þungra ökutækja, að þeir geri þrennt. Lækki loftþrýsting til að minnka álag, minnki farm og létti þannig ökutækið og dreifi álaginu á vegakerfið svo sem kostur er með því að flutningur fari ekki allur fram á svipuðum tíma dags. 

Viðbót kl. 17:30
Á þessari stundu lítur út fyrir að heldur sé að draga úr bikblæðingunum á þessari leið en áfram er óskað eftir því að vegfarendur fresti för ef kostur er þar sem veðrið vinnur ekki með okkur fyrr en hugsanlega síðdegis á morgun.