Fréttir
  • Tinna Húnbjörg Einarsdóttir og Þorbjörg Sævarsdóttir komu að rannsókninni.

Fjölmörg tækifæri á endurnýtingu úrgangs í vegagerð

Rannsóknarverkefni styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar

4.7.2019

Rannsóknir og þróun hafa verið nátengd starfsemi Vegagerðarinnar nánast frá upphafsárum hennar. Í dag veitir Rannsóknasjóður Vegagerðarinnar árlega 1,5% af mörkuðum tekjum stofnunarinnar til rannsóknaverkefna. Árið 2018 veitti hann 147 milljónum króna í 96 rannsóknaverkefni.

Eitt þeirra verkefna sem hlaut styrk á síðasta ári er verkefnið „Endurvinnsla frálagsefna í vegagerð“ sem unnið var af Þorbjörgu Sævarsdóttur, Tinnu Húnbjörgu Einarsdóttur, Friðriki Klingbeil Gunnarssyni og Rob Kamsma sem öll starfa hjá EFLU.

Hugmyndin að verkefninu vaknaði í samstarfi hópsins við umhverfissvið EFLU. „Þar er mikið unnið út frá hugtakinu „frá vöggu til vöggu“ sem snýst um hringrásarhugsun og að í upphafi skuli endinn skoða. Þannig þurfi að haga hönnun hluta þannig að hægt sé að taka þá í sundur og nýta aftur án þess að til verði úrgangur. Okkur langaði því að skoða nokkra mismunandi úrgangsflokka hér á landi og skoða möguleika á endurvinnslu þeirra,“ segja þær Þorbjörg og Tinna sem við hittum í nýjum höfuðstöðvum EFLU á Lynghálsi.

Gler, gúmmí og plast

Verkefnið snerist að stærstum hluta um öflun heimilda sem hægt verður að nota sem grunn að öðrum rannsóknaverkefnum.

„Við litum til reynslu annarra þjóða á notkun úrgangsefna í vegagerð,“ segir Þorbjörg en þeir úrgangsflokkar sem voru skoðaðir voru gler, gúmmí og plast auk malbikskurls, steypu og þakpappa en síðustu þrjú efnin hafa/er verið að rannsaka hérlendis, eða þau falla til í litlu magni og því minni áhersla lögð á þau.

Þær segja að það hafi komið þeim á óvart hve mörg tækifæri eru í endurvinnslu hér á landi. Til dæmis sé straumur glers nægilega stór til að nýta megi hann í vegagerð. „Það mætti meðal annars nota glermulning flöskuglers í undirlög vega með því að blanda honum saman við steinefnin,“ segir Tinna en tekur þó fram að nauðsynlegt sé að rannsaka betur hlutfall milli glermulnings og steinefnis við íslenskar aðstæður.

Magn hjólbarða sem skila sér í móttökustöðvar er mikið og þar sem ekki er leyfilegt að urða þá er mikilvægt að finna endaafurð sem hægt er að endurvinna þá í. „Mögulega mætti nota dekkjakurl í malbik þó rannsaka þurfi það betur. Hins vegar teljum við það raunhæfan kost að nota dekkjakurl í götugögn á borð við bílastæðastoppara og kantsteina.“

Helstu straumar í sérsöfnun plasts hérlendis eru heyrúlluplast, plastflöskur og plastumbúðir frá rekstri og heimilum. „Árið 2016 var safnað rúmlega 7.000 tonnum af slíku plasti og ekki fýsilegt að flytja það allt úr landi. Mögulega væri hægt að endurnýta plast í götugögn eins og vegstikur og framleiða þær innanlands á ný,“ segja þær.

Mikilvægt að geta sótt um styrk til Rannsóknarsjóðs Vegagerðarinnar

Hópurinn hefur hug á að halda áfram á þessari braut og rannsaka nánar einstaka þætti. „Við stefnum að því að sækja um rannsóknastyrk á næsta ári og þá langar okkur að fá samstarfsaðila úr iðnaðinum með okkur í lið.“

Þær Þorbjörg og Tinna segja gríðarmikilvægt að geta sótt um styrki í sjóði á borð við Rannsóknasjóð Vegagerðarinnar. „Það veitir okkur tækifæri til að einbeita okkur að spennandi og áhugaverðum verkefnum. Á móti kemur þetta sér einnig vel fyrir Vegagerðina sem þarna fær nýja vitneskju til að nýta í sinni starfsemi.“

Hér er hægt að lesa skýrsluna í heild sinni.