Fréttir
  • Arnarnesvegur, 3. áfangi. Gatnamótin við Breiðholtsbraut.
  • Arnarnesvegur, 3. áfangi. Séð í NA eftir nýjum Arnarnesvegi.
  • Arnarnesvegur, 3. áfangi. Horft í SV eftir nýjum Arnarnesvegi.

Fimm tilboð bárust í Arnarnesveg

Tvö voru undir kostnaðaráætlun

9.5.2023

Alls bárust fimm tilboð í gerð Arnarnesvegar (411) frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut. Óskatak ehf. og Háfell ehf. voru með lægsta tilboðið, sem hljóðar upp á 5.432.564.904 krónur. Það er er 88,3% af áætluðum verktakakostnaði, sem er 6.150.551.086 krónur. Tilboð Óskataks og Háfells er því tæplega 720 milljónum lægra en áætlaður verktakakostnaður. 

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, er sátt við góða þátttöku í útboðinu. „Við erum mjög ánægð með að fá tvö tilboð sem eru undir áætluðum kostnaði en nú hefst vinna við að skoða þessi tilboð öll nánar, áður en gengið verður til samninga,“ segir hún. 

Framkvæmdirnar felast í nýbyggingu Arnarnesvegar frá Rjúpnavegi
að Breiðholtsbraut með tveimur hringtorgum, vegbrú yfir Breiðholtsbraut
og einum ljósastýrðum vegamótum ásamt breikkun Breiðholtsbrautar frá Jaðarseli að Vatnsendahvarfi. 

Í verkinu eru tvenn undirgöng og tvær brýr fyrir gangandi og hjólandi, stofnstígar og stígatengingar. Auk þess tilheyrir verkinu lagning nýrrar hitaveituæðar Veitna, Suðuræðar II. Einnig verður unnið við hljóðdeyfigarða og hljóðveggi, regnvatnslagnir, snjóbræðslulagnir, settjörn, regnbeð, götulýsing og lagnir fyrir upplýsingakerfi Vegagerðarinnar.

Arnarnesvegur (411) frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Betri samgangna ofh. Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Veitna og Mílu. 

Verkið er fjármagnað af Samgöngusáttmálanum, sem gerður var 2019 milli ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu, þar sem markmiðið er m.a. að stuðla að auknu umferðaröryggi, hagkvæmum, greiðum og skilvirkum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.

Hér má sjá lista yfir þá sem tóku þátt í útboðinu:  

Bjóðandi 

Tilboð kr. 

Hlutfall 

Frávik þús.kr. 

Ístak hf., Mosfellsbæ 

6.967.994.000 

113,3 

1.535.429 

Íslenskir aðalverktakar hf., Reykjavík 

6.857.966.122 

111,5 

1.425.401 

Suðurverk hf. og Loftorka ehf., Kópavogi 

6.766.459.766 

110,0 

1.333.895 

Áætlaður verktakakostnaður 

6.150.551.086 

100,0 

717.986 

Jarðval sf., Kópavogi 

5.685.153.807 

92,4 

252.589 

Óskatak ehf. og Háfell ehf., Kópavogi 

5.432.564.904 

88,3 

Myndband sem Verkfræðistofan Verkís vann fyrir Vegagerðina þar sem sjá má þrívíddarlíkan af fyrirhuguðum framkvæmdum. 

https://youtu.be/Mz8K9TlQDT8