Fréttir
  • Hringtorg á Ísafirði á mótum Pollgötu, Hafnarstrætis og Skulsfjarðarbrautar.

Færð og veður - beint í bílinn

Beint streymi frá morgunfundi Vegagerðarinnar 14. apríl klukkan 9.

13.4.2021

Færð og veður – beint í bílinn er heiti morgunfundar Vegagerðarinnar sem verður í beinu streymi klukkan 9 miðvikudaginn 14. apríl. Þar verður kynnt hvernig upplýsingar um færð og ástand vega verða gerðar aðgengilegar alþjóðlegum leiðsöguþjónustum en Vegagerðin hefur nú hafið útgáfu þessara upplýsinga á DATEXII (Datex2) staðli Evrópusambandsins. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra mun taka þessa nýjung í gagnið á morgunfundinum.

DATEXII staðallinn gerir erlendum leiðsöguþjónustum kleift að sækja þær upplýsingar sem Vegagerðin birtir um vegakerfið, svo sem veður og færð, í rauntíma í leiðsögukerfum sínum hvort heldur er í farsímum eða í leiðsögukerfum bifreiða. Fulltrúi HERE Technologies verður á fundinum og fjallar um hvernig upplýsingarnar verða nýttar í leiðsögukerfum fyrirtækisins.

DATEXII er alþjóðlegur forritunarstaðall sem vel flest Evrópulönd hafa innleitt, nú síðast Noregur og Svíþjóð. Staðallinn einfaldar upplýsingagjöf fyrir vegfarendur því leiðsögufyrirtækin geta nálgast upplýsingar með samræmdum hætti milli landa og þarfnast því ekki sérlausna.

Með innleiðingu DATEXII staðalsins vonast Vegagerðin til að nauðsynlegar upplýsingar rati til vegfarenda og berist þeim á meðan á ferðalaginu stendur og geri leiðabestun skilvirkari.

Verkefnið var unnið með fjárveitingu sem til kom af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna óveðursins í desember 2019.

Dagskrá

  • Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar opnar fundinn.
  • Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra ávarpar fundinn og tekur DATEXII vefþjónustuna formlega í notkun.
  • Hvað er DATEXII og af hverju skiptir hann máli. Greipur Gíslason og Guðfinnur Sveinsson ráðgjafar Vegagerðarinnar.
  • Leiðsögukerfi HERE Technologies og hvernig fyrirtækið hyggst nýta upplýsingar frá Íslandi. Gjermund Jakobsen, framkvæmdastjóri/Data Sourcing Manager hjá HERE Technologies (á fjarfundi).

 

Morgunfundinum verður streymt á eftirfarandi slóð: https://livestream.com/accounts/15827392/events/9615366

Hægt er að spyrja spurninga í gegnum síðuna Sli.do með því að slá inn kóðanum: #vegur