Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin í ágústmánuðum frá 2005
  • Umferðin eftir vikudögum

Enn falla metin í umferðinni

gríðarlega aukning í umferðinni á Hringveginum í ágúst

1.9.2016

Gríðarlega aukning varð á umferðinni í ágúst á Hringveginum. Umferðin jókst um heil 13 prósent en að meðaltali hefur umferðin í ágúst aukist um 3,5 prósent. Umferðin frá áramótum talið hefur heldur ekki aukist meira eða um 12,8 prósent. Útlit er fyrir að umferðin í ár aukist um nærri 11 prósent sem yrði algert met því fyrra met mældist 6,8 prósenta aukning milli áranna 2006 og 2007.

Milli mánaða 2015 og 2016
Umferðin, um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi jókst um 13% í nýliðnum ágúst mánuði borið saman við sama mánuð á síðasta ári. Mest jókst umferðin um lykilteljara á Austurlandi eða um rúmlega 25%.  Þessi aukning er bæði met í bílum talið og í hlutfallslegum vexti milli ára í ágúst. Aldrei hafa fleiri ökutæki ekið um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar í ágúst mánuði frá því að þessi samantekt hófst, en alls fóru rúmlega 97 þúsund ökutæki um sniðin 16 á degi hverjum í síðasta mánuði. Árið 2015 fóru 86 þúsund ökutæki um þessi sömu snið í sama mánuði. Þannig að 11 þúsund bílum fleiri bílar fóru um Hringveginn á hverjum einasta degi í nýliðnum ágúst miðað við sama mánuð á síðasta ári.

Umferðin í ágúst hefur vaxið mest frá upphafi samantektar eða að meðaltali um 3,5% á ári. Þessi aukning nú í ár er því margfalt meiri en meðalvöxtur undanfarinna ára.

Samanburdur-agust

Frá áramótum milli áranna 2015 og 2016
Umferðin um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi hefur nú aukist um 12,8% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Líkt og milli mánaða þá er þetta einnig met í bílum talið og hlutfallslegum vexti miðað við árstíma frá því að þessi samantekt hófst á þennan hátt árið 2005.

Mest hefur umferðin vaxið á Austurlandi eða um rúmlega 27%.  Þessi mikli vöxtur umferðar á Austurlandi er eftirtektarverður en jafnframt verður að hafa í huga að umferðin um lykilmælipunkt á því svæði er sú lang minnsta eða rétt um 1,5% af heildarumferð svæðanna/lykilteljaranna.

Umferð eftir vikudögum milli áranna 2015 og 2016
Umferðin hefur vaxið mest á sunnudögum eða um 15,6% miðað við sama tímabil á síðasta ári. Mest er ekið um Hringveginn á föstudögum en minnst þriðjudögum.

Horfur út árið 2016
Horfur út árið hafa vaxið örlítið frá því að júlí tölur komu út en nú má búast við tæplega 11% aukningu umferðar á Hringveginum nú í ár, sé tekið mið af þessum 16 lykilteljurum Vegagerðarinnar.  Enn aukast líkur á því að aukningin nú í ár slái öll fyrri met á Hringveginum.  Mesta árlega aukning á Hringveginum fram til þessa er á milli áranna 2006 og 2007 eða 6,8%.