Fréttir
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin eftir vikudögum
  • Umferðin uppsafnað

Enn eykst umferðin á höfuðborgarsvæðinu

Aukningin í ár 6,2 prósent og hefur ekki aukist meira síðan árið 2007

19.8.2016

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í júlí sl. jókst um 3,5 prósent um þrjú mælisnið Vegagerðarinnar. Þetta er mun minni aukning en sú sem á sér stað á Hringveginum. Frá áramótum nemur aukningin 6,2 prósentum og þótt það sé minni aukning en á Hringveginum þarf eigi að síður að fara allt aftur til ársins 2007 til að finna meiri aukningu. 

Milli mánaða 2015 og 2016
Áætlað er að umferðin á höfuðborgarsvæðinu hafi aukist mun minna en á Hringveginum eða um 3,5% sé tekið mið af þremur mælisniðum Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu og 16 lykilteljurum á Hringvegi.

Umferðin jókst í öllum mælisniðum en mest um mælisnið ofan Ártúnsbrekku eða um 4,8%.  Þetta er mun hóflegri aukning en á Hringveginum, sbr. fréttir þar um, og rúmlega tvöfalt minni aukning en varð á sama tíma á síðasta ári.

Frá áramótum milli áranna 2015 og 2016
Umferðin hefur nú aukist um 6,2% það sem af er ári miðað við sama tímabil á síðasta ári. Þó þessi aukning sé mun hóflegri en á Hringveginum þarf að fara allt aftur til ársins 2007 til að finna meiri aukningu miðað við árstíma fyrir mælisniðin þrjú.

Umferð eftir vikudögum
Umferðin á miðvikudögum hefur aukist hlutfallslega mest og það sem vekur athygli er að sá vikudagur er orðinn stærstur í umferðinni innan höfuðborgarsvæðisins. Áður voru föstudagar stærstir líkt og á Hringveginum.  Þetta kann að gefa vísbendingu um breytta aksturshegðun og að hún sé borin uppi af auknum umsvifum í atvinnulífi.

Horfur út árið 2016
Nú er útlit fyrir að umferðin á höfuðborgarsvæðinu geti aukist um 5 - 6%, miðað við síðasta ár. Eins og áður hefur komið fram eru það mun hóflegri horfur en á Hringvegi en engu að síður mjög mikil aukning, á þessu svæði.

Talnaefni