Fréttir
  • Covid umferðin í viku 15
  • Umferðin um Hellisheiði miðvikudag fyrir páska

Enn dregur úr umferð

Í síðustu viku hélt umferðin á höfuðborgarsvæðinu áfram að dragast saman

14.4.2020

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku, viku 15 var heldur minni en í vikunni áður og heldur því áfram að dragast saman í samkomubanninu. Mismunandi tímasetning páska spilar líka eflaust inní, en umferðin þar sem hún hefur dregist mest saman, á Hafnarfjarðarveginum, en innan við helmingur þess sem hann var í sömu viku fyrir ári síðan.

Umferðin í viku 15
Eftir tiltölulega litla sem enga aukningu í samdrætti í viku 14, í umferð um 3 lykil mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu,  kom aftur kippur niður á við í nýliðinni viku, eða viku 15, og reyndist meðalumferð á sólahring vera tæplega 43% minni en í sömu viku á síðasta ári.  Þá er umferðin er að nálgast það að vera helmingi minni en hún var fyrir ári síðan, í umræddum sniðum.  Þess ber þó að geta að páskar voru í lok viku 16 og byrjun viku 17, á síðasta ári en í ár voru þeir í lok viku 15 og byrjun viku 16.  Þetta kann að skekkja samanburðinn eitthvað núna og á næstu tveimur vikum eða vikum 16 og 17.

Samdrátturinn á Hafnarfjarðarvegi hefur leitt þessar samdráttartölur og nú er svo komið að hann er kominn í tæplega 52%.  Það er umhugsunarefni hvað er að gerast á þessari leið: Hafnarfjörður- Reykjavík.

En samdráttartölur skiptast svona niður eftir sniðum, í viku 15.

Hafnarfjarðarvegur við Kópavogslæk      -51,6%
Reykjanesbraut við Dalveg                        -39,6%
Vesturlandsvegur ofan Ártúnsbrekku      -40,9%

Umferðin á miðvikudag fyrir páska
Nokkur umræða varð á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum um umferðina austur yfir Hellisheiði miðvikudaginn fyrir páska. Sumsstaðar var því haldið fram að umferðin í ár væri meiri en undanfarin þrátt fyrir samkomubann og óskir um ferðalög innanhúss. Það er ekki rétt einsog margir fjölmiðlar bentu reyndar á, líkt og sjá má á súluritinu sem fylgir fréttinni þá var umferðin þennan miðvikudag miklu minni en undanfarin ár. Umferðin var aðeins 60 prósent af því sem hún var t.d. miðvikudaginn fyrir páska árið 2017 þegar hún var hvað mest.