Fréttir
 • Gjögurtá.
 • Ástþór Ingi og Guðmundur Jón við vitann í Þormóðsskeri.
 • Bjarnareyjarviti.
 • Brimnesviti.
 • Faxaskersviti í Vestmannaeyjum. Í baksýn er Elliðaey og horft upp í Eyjafjöll.
 • Gert við legufæri.
 • Glettinganes.
 • Hjól voru notuð til að ferja vatn að Siglunesvita.
 • Horft yfir til Dragnsness frá Grímseyjarvita á Steingrímsfirði.
 • Hörgárgrunnsdufl í viðhaldi.
 • Kerlingakersdufl á leið inn á þilfar.
 • Lendingin í Skor. Léttabátur frá Landhelgisgæslunni sækir starfsmenn Vegagerðarinnar. Út við varðskip var leiðindaveður en logn í Skor.
 • Maturinn um borð í Þór fór vel í rafvirkjana.
 • Mikill farangur fylgdi rafvirkjunum. Hér er það sem var að finna neðan þilja.
 • Rafvirkjunum var flogið í Galtarvita.
 • Siglunesviti.
 • Skipverjar Þórs voru rafvirkjunum innan handar. Hér eru þeir við Gjögurtá.
 • Straumnesviti.
 • Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug með rafvirkja Vegagerðarinnar á staði sem ómögulegt var að komast að frá sjó.
 • Unnið að því að hífa Rifsdufl upp í varðskipið.
 • Unnið að því að hífa Rifsdufl upp í varðskipið.
 • Uppgangan frá fjörunni við Hornbjargsvita. Sjólagið gerði það ómögulegt að lenda á bát og Landhelgisgæslan flaug með rafvirkjana á staðinn.
 • Uppgangan í Lundey á Skjálfanda. Í bakpokanum er 30 kg. rafgeymir.
 • Vitinn í Þormóðsskeri.

Ekki starf fyrir lofthrædda

Umfjöllun um vitaferð með Landhelgisgæslunni í Framkvæmdafréttum

22.12.2020

Árlega fara rafvirkjar Vegagerðarinnar hringferð um landið í eftirlits- og vinnuferð í vita og dufl sem aðeins er hægt að komast í frá sjó. Í ár fengu þeir Guðmundur Jón Björgvinsson og Ástþór Ingi Ólafsson að sigla með áhöfn Landhelgisgæslunnar á varðskipinu Þór en mikið og gott samstarf er milli gæslunnar og Vegagerðarinnar. Farið var í 36 vita fjölmörg dufl tekin upp.

Þessi grein birtist í Framkvæmdafréttum sem nú eru á leið til áskrifenda. Rafræna útgáfu má finna hér. Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.

Guðmundur var að ljúka sinni fimmtu ferð en Ástþór Ingi, eða Ingi eins og hann er ávallt kallaður, var að fara í sína aðra hringferð. „Það er ennþá smá sjóriða í manni,“ segir Ingi glettinn enda aðeins tveir dagar síðan þeir félagar komu í land þegar rætt er við þá, en þeir voru á sjó í tvær vikur á sjó  og miklum sjógang síðustu dagana. Guðmundur ber sig vel, segist í fyrsta sinn ekki finna fyrir sjóriðu.

Lagt var af stað 7. september sem er mun síðar en venja er. Kom það til vegna ástandsins í þjóðfélaginu og í raun ekki sjálfgefið að farið yrði í ferðina yfirleitt. Þessi seinkun varð þó til þess að góðviðrisdagar voru færri og nýttust verr vegna dvínandi birtu.

Köflótt veður og erfitt sjólag

Verkefnalisti ferðarinnar var langur. Fara þurfti í 36 vita og taka upp fjölmörg dufl.

Lagt var af stað úr Reykjavíkurhöfn. Fyrst var farið út í Þormóðssker og tekin upp dufl í Hvalfirði, við Gróttu og Akranes. Næst var það Breiðafjörðurinn en þegar brast á með slæmu veðri var ákveðið að halda strax á Vestfirði þó nokkur verkefni væru eftir, en engin leið var að lenda í þeim skerjum sem þurfti vegna sjógangs.  

Veðrið í ferðinni var köflótt og góðu dagarnir voru nýttir eins vel og hægt var. „Vinnudagarnir eru langir, við förum á fætur langt á undan skipverjunum enda þurfum við að gera okkur klára fyrir daginn,“ lýsir Guðmundur.

Ingi segir ferðina nú töluvert öðruvísi en á síðasta ári. „Það er allt annað að vera í svona ferð um hásumar og í fyrra fengum við mun betra veður. Hins vegar vorum við á mun betra sjóskipi í ár,“ lýsir hann en ferðin í ár var farin á varðskipinu Þór en á Tý í fyrra.

Þeir segja slíkar ferðir þó alltaf skemmtilegar en alveg þrælerfiðar. „Við vorum oft mjög þreyttir og stukkum oft beint upp í rúm þegar vinnudagurinn var búinn,“ segir Ingi og Guðmundur samsinnir. „Sumir halda að þetta sé hálfgert orlof hjá manni, en við erum oft að bera 20 til 30 kílóa bakpoka upp kletta og langar leiðir sem tekur mikið út af tanknum.“

Fengu far í Flatey

Til að létta sér lífið tóku þeir reiðhjól með sér í ferðina. „Þau nýttust ágætlega, sérstaklega þar sem bera þurfti þungt um langan veg. Út í Siglunes þurftum við til dæmis að taka með okkur 25 lítra af vatni sem engin leið er að bera, þá hengdum við brúsana á hjólin,“ segir Guðmundur en einnig nýtast hjólin vel í Flatey á Skjálfanda því þar eru vegalengdirnar meiri. „Reyndar var ég svo heppinn að þegar við komum út í Flatey kom aðvífandi maður sem heitir Gunnar og býr í eyjunni. Hann kom með kerru og spurði hvort ég vildi ekki far. Ég fékk far með Gunnari að vitanum og Ingi sá um innsiglingaljósin í höfninni á meðan.“

Heppni í Galtarvita

Guðmundur og Ingi fengu far með þyrlu Landhelgisgæslunnar út í Galtarvita og Hornbjargsvita en þyrlan var þá í gæsluflugi nærri Þór. „Það var heppilegt því við hefðum aldrei komist í þessa vita frá sjó, öldurnar voru slíkar.“ í Galtarvita er vindrafstöð því þar er ekki sól allt árið. Þegar þeir félagar komu á staðinn sáu þeir að það vantaði spaðana á rafstöðina. Nú var illt í efni því auka spaðar voru ekki með í för. „Allt stefndi í að við þyrftum að senda heila þyrlu eftir auka spaða í varðskipið sem var þá inní Jökulfjörðum. En svo vorum við svo ljónheppnir að við fundum spaðann óskaddaðan, hann hafði þá fokið af og lent aðeins frá vitanum. Við gátum þá fest hann upp að nýju og sluppum með skrekkinn.“

Góð stemning um borð

Guðmundur og Ingi segja vistina um borð í varðskipum Landhelgisgæslunnar einstaklega góða. „Það er tekið ótrúlega vel á móti manni. Manni líður nánast eins og heima. Þessir strákar í áhöfninni eru orðnir vinir manns enda kynnist maður vel í svona ferðum,“ segja þeir.

Skipverjar voru þeim félögum einnig innan handar alla ferðina. „Þeim finnst held ég gaman að fara með okkur í land, það brýtur upp dagskrána hjá þeim og þeir fá góða æfingu í fjörulendingum. Það er gott að eiga góða að og Vegagerðin á mjög góða að þar sem Landhelgisgæslan er,“ segir Guðmundur.

Þeir segja stemninguna um borð mjög góða og ekki skemmi maturinn. „Við fengum alltaf gott að borða. Góðan heimilismat sem hentaði körlum úr sveit eins og mér,“ segir Ingi hlæjandi en tvisvar fengu þeir kæsta skötu sem þeim fannst frábært.

Að lokum er ekki úr vegi að spyrja: Hver er nú fallegasti vitinn? „Held við séum nokkuð sammála um að glæsilegasti vitinn sem við komum í er í Bjarnarey. Vitinn stendur eins og kastali í klettunum og frábær aðkoma að honum.“

 

Mikill búnaður með í för

Stóran flutningabíl og einn vörubíl með krana þurfti til að koma öllum búnaði rafvirkjanna í varðskipið.

 • Fjögurra tonna ankerissteinn
 • Tvö bretti með 36 mm keðju, ca 100 metrar.
 • Tveir kassar og eitt kar með minni keðjum og haugur af keðjulásum
 •  Kassi með legufærum fyrir öldudufl
 • 2 stk. öldudufl
 • Tvö vörubretti með lútrafgeymum (30stk)
 • Bretti með sýrurafgeymum (12stk)
 • Bauja með legufærum
 • Tvö bretti með verkfærum og varahlutum
 • Bretti með varahlutum fyrir vindrafstöðvar
 • Bretti með ýmsu úr stáli, eins og ný þrep fyrir uppgönguna í Mánareyjum
 • Bretti með rafmagnsköplum
 • Ýmislegt annað; rafstöð og hleðslutæki, varahlutir í veðurstöðvar, stigar af ýmsum stærðum, tröppur, tvær tegundir af flotvinnugöllum, vinnufatnaður að öllum stærðum og gerðum, öryggishjálmar, björgunarvesti, bakpokar, vatnheldir dufflar, vinnuvettlingar, öryggisgleraugu og margt fleira.

 

Hvað er í bakpokunum?

 • verkfæri og varahlutir
 • rafgeymamælir
 • AVO rafmagnsmælir
 • Sýrumælir
 • höggborvél
 • borvél
 • auka rafhlaða
 •  skýrslumappa og glósubók
 •  5-10 l af vatni
 • vatnskanna til að bæta vatni á rafgeymana
 • efni til að hreinsa linsu vitans
 • auka perur (mismunandi milli vita)