Fréttir
  • Skilti minnir vegfarendur á að framkvæmdir eru framundan og mikilvægt að aka varlega.
  • Ágúst Jakob Ólafsson yfirverkstjóri hjá ÍAV við eitt af skiltunum sem minna vegfarendur á mikilvægi þess að fara varlega.
  • Búið er að steypa einn vegg af fjórum í brú yfir Bakkaholtsá.
  • Undirgöng við Kotströnd. Verið er að slá upp fyrir brúarpötunni.
  • Umferð verður hleypt á vegkaflann frá Kirkjuferjuvegi og að Selfossi í ágúst.
  • Undirgöng við Þórustaði eru nánast tilbúin.
  • Við nýja hringtorgið á Selfossi, horft í vesturátt.

Ekki spurning hvort heldur hvenær verður alvarlegt slys vegna hraðaksturs um vinnusvæði

Yfir 50% ökumanna aka of hratt í gegnum vinnusvæði

21.7.2022

Framkvæmdir við annan áfanga breikkunar Hringvegar (1) milli Hveragerðis og Selfoss ganga framar vonum. Umferð verður hleypt á helming kaflans strax í ágúst og verkið verður að mestu tilbúið fyrir áramót. Ágúst Jakob Ólafsson, yfirverkstjóri hjá ÍAV, hefur hins vegar áhyggjur af hraðakstri vegfarenda í gegnum vinnusvæðið en oft hefur legið við stórslysi. Yfir helmingur ökumanna ekur of hratt miðað við merkingar.

Ágúst hefur verið yfirverkstjóri í báðum áföngum við breikkun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss og því verið á framkvæmdasvæðinu í fjögur ár. „Ég er farinn að þekkja svæðið þokkalega,“ segir hann kankvíslega þar sem hann stillir sér upp við glænýtt skilti sem varar vegfarendur við því að framundan sé framkvæmdasvæði og því þurfi að aka varlega, enda vinni þar bæði mömmur og pabbar, afar og ömmur, frændur og frænkur.

„Ég er mjög hrifinn af þessu framtaki. Það er góð hugmynd að vera með þessa persónulegu nálgun, það vekur fólk til umhugsunar,“ segir hann og á þar við vitundarátakið „Aktu varlega! mamma og pabbi vinna hér“. 

Meðan við spjöllum eru starfsmenn ÍAV að færa umferð á nýjan vegarkafla, hættulega nálægt hraðri umferðinni, en með þessum tilfærslum losna vegfarendur við hjáleið rétt vestan við Kotströnd.

„Þegar menn eru að vinna í nálægð við umferðina eru þeir í stórhættu, sérstaklega þegar fólk virðir ekki hraðatakmarkanir,“ segir Ágúst en nýlegar mælingar ÍAV sýna að yfir helmingur ökumanna aki of hratt í gegnum vinnusvæði þar sem hámarkshraði er 70 km á klst. eða 53% ökumanna. Þar sem hámarkshraði er 50 km á klst. óku 70% ökumanna yfir þeim hraða.

„Það er því ekki spurning hvort, heldur hvenær verður alvarlegt slys og jafnvel banaslys þegar fólk er að aka of hratt um vinnusvæði og keyrir á starfsfólk við vinnu,“ segir Ágúst.

Hann segir alla fræðslu af hinu góða og gott að reyna að vekja fólk til umhugsunar en telji hann bestu leiðin til að fá fólk til að fylgja merkingum þá að láta það bitna á veskinu. „Fólk tekur ekki mark á þessu fyrr. Það þyrfti að setja upp hraðamyndavélar á vinnusvæðum og sekta þá sem fara of hratt. Jafnvel ætti sú sekt að vera hærri en venjulega.“

Hann segir fólk oft pirrað að aka langa vegarkafla með 70 eða 50 km hámarkshraða. „En við erum ekki að gera þetta að gamni okkar. Reglurnar um vinnusvæðamerkingar eru skýrar. Þegar búið er að raska umhverfi vegarins, búið að eiga við öryggissvæði hans, þá er vegurinn ekki eins öruggur og hann var. Þá þarf að taka niður hraða. Þess vegna getum við ekki hækkað hámarkshraðann í gegnum vinnusvæðin þó enginn sé að vinna, til dæmis um helgar og næturna, því það er búið að raska öryggissvæðum vegarins.“

Verktakinn ber ábyrgð á öryggismálum á vinnusvæðinu meðan á framkvæmdum stendur. „Segjum sem svo að við tækjum ekki niður hraða, einhver æki útaf og lenti á ruðningi sem hefur orðið til við vegaframkvæmdirnar og stórslasaði sig. Þá er verktakinn ábyrgur fyrir því.“

Hann bendir á að allar þessar merkingar og hraðatakmarkanir séu ekki síst hugsaðar til að minnka líkur á slysum vegfarenda.

Oft legið við slysi

Ágúst þekkir mörg dæmi þess að legið hafi við slysi vegna hraðaksturs í gegnum vinnusvæði. „Það hefur verið keyrt utan í starfsmenn hér hjá okkur í þessu verki. Þeir meiddust sem betur fer ekki. Síðan var slys hjá Colas í fyrra þar sem ekið var utan í mann,“ lýsir hann og bendir á að aðstæður séu oft mikið erfiðari á höfuðborgarsvæðinu þar sem oftar er unnið í nálægð við umferðina. Úti á landi sé hins vegar hraðinn meira vandamál.

Hann segir mikilvægt að kenna fólki hvernig það eigi að haga sér við akstur gegnum vinnusvæði og í það megi leggja þó nokkurn pening. „Eitt slys kostar milljónir, fyrir utan persónulegt tjón viðkomandi. Ef við náum að fækka slysum um eitt höfum við borgað þetta upp.“

Framkvæmdir á undan áætlun

Framkvæmdum á öðrum áfanga breikkunar Hringvegar (1) milli Hveragerðis og Selfoss miðar mjög vel að sögn Ágústs. „Við erum í heildina á undan áætlun. Samkvæmt verksamningi ættu lok verksins að vera í lok september 2023 en við stefnum að því að þetta verði að stærstum hluta búið fyrir áramótin næstu. Hugsanlega verður þó einhver frágangur eftir,“ lýsir Ágúst en helstu vafaatriðin snúa að brúarsmíði en vegagerðinni verður örugglega lokið.

Byggja þarf fimm brýr í þessu verki og er framkvæmdum lokið við þrjár þeirra. Það eru tvær brýr yfir Gljúfurholtsá og undirgöng við Þórustaði, við námuna í Ingólfsfjalli. „Við erum líka búnir að reisa tvö reiðgöng og búnir að steypa upp undirgöngin við Kotströnd en erum að slá upp fyrir brúarplötunni núna. Svo erum við búnir að steypa einn vegg af fjórum í brú yfir Bakkarholtsá.“

Vegfarendur geta látið sig hlakka til í ágúst þegar umferð verður hleypt á stóran hluta nýja vegarins frá Kirkjuferjuvegi og að nýja hringtorginu við Selfoss. „Við opnun þennan hluta vegarins á næstu vikum, vonandi seinnipartinn í ágúst.“

Á kaflanum frá Kotströnd og að Kirkjuferjuvegi hefur verið byggður nýr vegur frá grunni sem er þá ekki í sama vegstaðli og gamli Hringvegurinn. „Þar erum við búnir að ljúka við undirbyggingu og fyllingar. Á þeim kafla eru þessar tvær brýr sem eru ekki enn fullreistar. Vonandi náum við að hleypa umferð á þann kafla í lok árs.“

Nýjungin kaldbik og upplýst vegamót

Ágúst ekur eftir nýja Hringveginum og bendir á áhugaverða nýjung. „Hér erum við að aka á kaldbiki sem er efni sem ekki hefur verið notað áður. Það er sett ofan á burðarlagið til að auka burðinn í veginum. Í fyrri áfanganum vorum með sementsbundið efni sem var flókið að leggja og háð veðri. Kaldbikið er lagt út kalt og er auðveldara í útlagningu. Mér líst bara mjög vel á þessa aðferð og hef trú á að hún virki vel,“ segir Ágúst og bendir á að ofan á kaldbikið fari síðan burðarlagsmalbik og loks malbiksslitlag.

Á öllum gatnamótum á leiðinni verða ljósastaurar til að auka öryggi. Einnig verður upplýst þjónustuplan þar sem hægt verður að sinna vegaeftirliti.

„Þetta er mjög skemmtilegur tími núna. Það er mikið að gerast á hverjum degi og verið að vinna í öllum verkþáttum,“ segir Ágúst en í heildina eru um 55 manns að vinna við framkvæmdinni þessa dagana og í kringum 30 tæki, allt frá vörubílum, ýtum og völturum til malbikunarvéla, grafa og hefla. „Ég er með einstaklega góðan mannskap hérna sem er ástæðan fyrir því að verkið gengur svona vel. Þessi störf í vegavinnu eru vanmetin því þau eru bæði skemmtileg og fjölbreytt,“ segir Ágúst glaðlega og hvetur ungt fólk til að íhuga að sérhæfa sig í þessari vinnu. „Það er flókið að gera almennilega vegi og í það þarf fólk með reynslu.“