Fréttir
  • Snjóblásari að störfum á Hellisheiði aðfaranótt mánudagsins 6. apríl.
  • Grétar ók í kjölfar blásarans.
  • Snjóblásari að störfum á Hellisheiði aðfaranótt mánudagsins 6. apríl. Mynd/Grétar Einarsson
  • Grétar Einarsson flokksstjóri á þjónustustöðinni á Selfossi.

Eins og hálfs metra snjór á Hellisheiði

Snjómokstur á Hellisheiði aðfaranótt 6. apríl

7.4.2020

Grétar Einarsson flokksstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Selfossi var við eftirlit á Hellisheiði aðfaranótt mánudagsins 6. apríl og smellti þá nokkrum myndum af snjóblásara við störf. Mikið fannfergi gerði á Hellisheiði á sunnudag, ofankoma var mikil, vegurinn lokaður í lengri tíma og því hafði snjórinn nægan tíma til að safnast upp. Mikill vindur feykti snjónum í háa skafla sem margir náðu yfir hundruð metra en á öðrum köflum var vegurinn nánast auður.

„Myndirnar eru teknar um tvö leytið um nóttina en byrjað var á að opna Þrengslin áður en hafist var handa við Hellisheiðina,“ segir Grétar sem fylgdist með aðgerðum, sá um að upplýsa vaktstöð Vegagerðarinnar og skoðaði hvar þyrfti að blása. Hann lenti ekki í vandræðum sjálfur en færið var ekki fyrir neina venjulega jeppa. „Ég passaði mig á því að halda mig þar sem búið var að moka,“ segir hann glettinn og bendir á að stóran trukk hafi þurft til að flytja bílstjóra snjóblásarans upp á Hellisheiði en stóri snjóblásarinn sem notaður er í verkið er geymdur við skíðaskálann í Hveradölum. „Það tók þá tvo tíma að komast að blásaranum frá Selfossi.“

Snjórinn á heiðinni og í Þrengslunum var það mikill að ekkert nema snjóblásari gat unnið það verk að grynnka á snjónum sem á löngum köflum var einn og hálfur meter að þykkt og víða þannig að víravegriðin voru alveg á kafi. Snjóblásarinn var notaður til að losa mesta snjóinn og á eftir honum komu snjóruðningstækin og kláruðu verkið. Heiðin var svo opnuð fyrir umferð milli sex og sjö um morguninn.

Fordæmalaust er vinsælt orð þessa dagana en Grétar segir það ekki eiga við í þessu dæmi. „Nei, nei. Það gerði bara byl,“ segir hann hlæjandi en viðurkennir þó að líklega sé þetta mesti snjórinn sem hafi komið á heiðina í vetur. „En þetta er ekki í fyrsta skipti í vetur sem við höfum þurft að nota blásara til að opna, og kannski ekki síðasta.“