Fréttir
  • Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng Arnarfjarðarmegin. Mynd/Haukur Sigurðsson

Dýrafjarðargöng opnuð á sunnudag

opnað með óvenjulegum hætti

23.10.2020

Sunnudaginn 25. október kl. 14:00 verða Dýrafjarðargöng opnuð með óhefðbundnum hætti sökum kórónuveirufaraldursins. Samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannson og forstjóri Vegagerðarinnar Bergþóra Þorkelsdóttir verða stödd í húsakynnum Vegagerðarinnar í Reykjavík. Að loknum stuttum ávörpum mun ráðherra biðja vaktstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði að lyfta slánum við gangamunnana og þannig opna göngin fyrir umferð. 

Ávörpunum verður útvarpað við báða munna ganganna á FM-tíðninni 106,1. Viðburðinum verður streymt á Facebook síðu Vegagerðarinnar: www.facebook.com/Vegagerdin, streymt verður á slóðinni https://livestream.com/accounts/5108236/events/9367337

Vestfirðingum er boðið að safnast saman í bílum sínum við báða munna ganganna og fá þannig tækifæri til að aka í gegnum göngin um leið og þau hafa verið opnuð. Nemendur Grunnskólans á Þingeyri munu fyrstir aka í gegn Dýrafjarðarmegin ásamt Gunnari Gísla Sigurðssyni sem hefur mokað Hrafnseyrarheiði síðan árið 1974. Skólabörnin hafa þrýst á um samgöngubætur og óskuðu strax eftir því við samgönguráðherra í janúar að fá að aka fyrst í gegnum göngin. Ljúft var að verða við þeirri ósk. Fólk er hvatt til að halda sig í bílunum og tryggja þannig að öllum reglum um sóttvarnir sé fylgt til hins ítrasta.

Dynjandisheiðin verður mokuð á sunnudag ef reynist þörf fyrir það. Þeir sem bíða eftir því að aka í gegn eru beðnir um að safnast í einfalda bílaröð á hægri kanti vegarins og að aka viðstöðulaust í gegn eftir að opnað hefur verið. Fyrir þá sem koma að norðan þá eru góðar tengingar til að snúa við eftir ferð í gegnum göngin vestan við brú á Mjólká. Þeir sem koma að vestan og hafa ekið í gegn geta snúið við nærri Kjaransstöðum þar sem eru góðar tengingar.

Aðalverktaki við gerð Dýrafjarðarganga var Metrostav a.s. og Suðurverk hf. en umsjón og eftirlit var í höndum GeoTek ehf. og Eflu hf. Vestfirskir verktakar ehf. byggðu brýrnar. Rafskaut ehf. sá um raflagnir, Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas hf. sá um malbikun og Rafeyri sá um stjórnkerfi ganganna. Framkvæmdir hófust í júlí 2017.

Með tilkomu Dýrafjarðarganga styttist Vestfjarðarvegur um 27,4 km þar sem leiðin yfir Hrafnseyrarheiði sem lengi hefur verið helsti farartálminn leggst af yfir vetrarmánuðina en þar eru mikil snjóþyngsli og mikil snjóflóðahætta efst á heiðinni. Með þessu er hægt að tryggja góðar samgöngur á Vestfjarðavegi (60) milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem er stór þáttur í að ná aðalmarkmiðinu um heilsárs vegasamband milli vestfirskra byggða.

Nú þegar hefur Vegagerðin hafist handa við næsta áfanga sem er nýr og endurbættur vegur yfir Dynjandisheiði og má ætla að þessu meginmarkmiði um heilsárs vegasamgöngur á Vestfjörðum verði náð innan fárra ára.

Með fylgir ítarlegri lýsing á verkinu.