Fréttir
  • Dýpkun í Landeyjahöfn - Dísan
  • Mynd 1: Ölduhæð yfir 3,0 m fyrir 2014-2022
  • Mynd 2: Ölduhæð yfir 2,0 m fyrir 2014-2022
  • Mynd 3: Ölduhæð sem hlutfall af tíma fyrir hvern mánuð fyrir mismunandi ölduhæð

Dýpið í Landeyjahöfn

ölduhæðin ræður mestu um siglingar Herjólfs

4.3.2022

Óvenjuslæmt tíðarfar það sem af er ári hefur leitt til þess að ekki hefur verið hægt að sigla eins oft til Landeyjahafnar og var gert árið 2021. Það er fyrst og fremst öldufar sem hamlar för en einnig hefur dýpi hafnarmynnis verið takmarkandi þáttur. Eftir að nýi Herjólfur kom til sögunnar hefur Landeyjahöfn verið mun meira opin en áður var. Djúprista nýja skipsins er minni en eldra skips en auk þess munar miklu um það að stjórnhæfni skipsins er miklu betri en á eldra skipi. Fyrir vikið þarf skipið minna dýpi til innsiglingar sem leiðir af sér að dýpkunarþörf  er mun minni heldur en var reyndin þegar gamli Herjólfur sigldi. Árið 2021 sigldi Herjólfur um 92% af sigldum ferðum til Landeyjahafnar, sem er nálægt þeim viðmiðum sem reiknað var með þegar höfnin var byggð.

Nýjustu dýptarmælingar gefa til kynna að áhrif Eyjafjallajökulsgossins og þess mikla efnis sem þá barst til sjávar hafi dvínað til muna síðastliðið ár.

Undanfarin ár hefur sandur í höfninni eða hafnarmynninu ekki verið til mikilla vandræða fyrr en fór á líða á janúar  2022. Það gerist í kjölfarið á þrálátum suðvestanáttum með hárri ölduhæð. Í slíku veðurfari verða til  mjög fáir og stuttir framkvæmdagluggar  fyrir dýpkunarskip. Til þess að geta fullnýtt alla framkvæmdaglugga við þessar aðstæður þarf að vera til reiðu afkastamikið dýpkunarskip sem getur á skömmum tíma fjarlægt umtalsvert magn efnis. Við núverandi aðstæður þarf að fjarlægja um 10.000 m3 af efni til þess að höfnin sé nægjanlega djúp, til samanburðar hefði þurft að fjarlægja um 40-50.000 m3 af efni ef gamli Herjólfur ætti að sigla í höfnina. Vegna þessa er nú í nýju útboði stefnt að því að ráða til starfans afkastamikið dýpkunarskip sem getur hreinsað um 10.000 m3 á dag, sem er um 3-4 sinnum þau afköst sem núverandi dýpkunarskip hefur.

Fyrir fjórum árum var unnið með hugmyndir um að dýpka hafnarmynnið út frá endum hafnargarðanna með krana og dýpkunarbúnaði á enda hans. Hugmyndin var að geta dýpkað með þessum hætti á þeim tímabilum sem ekki var dýpkað með dýpkunarskipi. Hluti af þessu verkefni snerist um stækkun innri hafnarkvíar, lengingu á innri vesturgarði og byggingu á grjóttunnu á þeim garðsenda og byggingu og lagfæringu á vegum á brimvarnargörðum. Allir þessir þættir voru framkvæmdir og hafa stórbætt höfnina og eru í raun forsenda þess að höfnin býður upp á þá kyrrð sem þarf til þess að hlaða Herjólf rafmagni.

Að auki stóð til að byggja grjóttunnur á enda garðanna. Fram komu athugasemdir um að sú framkvæmd myndi minnka bilið á milli garðanna og torvelda  innsiglingu ferjunnar.  Ákveðið var að slá þessum þætti verkefnisins á frest  Við skoðun á þeim aðstæðum sem uppi þurfa að vera til þess að dýpkun með þessari tækni sé möguleg og þeim aðstæðum sem við búum við núna má heita líklegt að þessi framkvæmd verði ekki sett á dagskrá aftur. Til þess að geta dýpkað með þessari tæki þarf ölduhæð að vera undir 2 m og vindhraði undir 11 m/s í að minnsta kosti tvo daga samfleytt. Slíkar aðstæður koma sjaldan upp að vetrarlagi í Landeyjahöfn og hafa ekki verið fyrir hendi það sem af er þessa árs.  Aðstæður okkar eru að öðru leyti þær að nú er siglt með nýju skipi sem ræður við erfiðari aðstæður en áður var.  Sú breyting hefur líka orðið að dýpkun fer nú fram allt árið eftir því sem þörf er á og aðstæður leyfa.

Þrátt fyrir að tappi hafi myndast í höfninni um miðjan janúar hefur það ekki stöðvað siglingar í Landeyjahöfn. Ekki hefur tekist að dýpka sem skyldi vegna veðurs en Herjólfur hefur siglt eftir sjávarföllum þegar öldulag leyfir. Dýpið er nægilegt þegar sjávarstaða er há. Hinsvegar hafa þrálát vetrarveður og dæmalaust há alda stöðvað ferðir Herjólfs ítrekað nú í ár, algerlega óháð dýpinu.

Mynd 1: Ölduhæð yfir 3,0 m fyrir 2014-2022









Mynd 1: Ölduhæð yfir 3,0 m fyrir 2014-2022


Ölduhæð við Landeyjahöfn í janúar og febrúar er að öllu jafna mjög mikil. Myndin að ofan sýnir hvert hlutfall öldu er sem er hærra en 3,0 m fyrir árin 2014-2022. Ljóst er að 42% af tímanum var aldan yfir viðmiðunarölduhæð til siglinga til Landeyjahafnar og því hægt að gera ráð fyrir að yfir helmingi ferða þurfi að öllu jafna að fara til Þorlákshafnar ef dýpi í Landeyjahöfn er í lagi.

Mynd 2: Ölduhæð yfir 2,0 m fyrir 2014-2022












Mynd 2: Ölduhæð yfir 2,0 m fyrir 2014-2022

Þegar dýpi í hafnarmynni Landeyjahafnar er takmarkað lækka viðmið þar sem hægt er að sigla til hafnarinnar enn frekar og til viðmiðunar er ölduhæð einungis 28% undir 2,0 m í febrúar 2022. Í byrjun febrúar kom tæpir 2 dagar þar sem möguleiki var að dýpka höfnina og svo aftur 1 dagur um miðjan mánuðinn.

Að jafnaði er mjög mikill munur á þessum mánuðum og mars þar sem aldan er að jafnaði 18% af tímanum yfir 3,0 m og 50% af tímanum undir 2,0 m, sjá mynd 3.0

Mynd 3: Ölduhæð sem hlutfall af tíma fyrir hvern mánuð fyrir mismunandi ölduhæð








Mynd 3: Ölduhæð sem hlutfall af tíma fyrir hvern mánuð fyrir mismunandi ölduhæð

Til þess að takmarka enn frekar, og jafnvel koma í veg fyrir, þann tíma sem dýpið er takmarkandi í höfninni verða gerðar nokkrar breytingar á fyrirkomulagi dýpkunar með nýju þriggja ára útboði fyrir árin 2022-2025. Í útboðsskilmálum verða gerðar auknar kröfur um afkastagetu, djúpristu og stjórnhæfni skips sem mun sjá um dýpkunina. Þótt skilmálar séu ekki að fullu mótaðir hefur verið ákveðið að unnið verði að dýpkun allt árið ef þörf krefur, frekar en eftir árstíðum.

Hátt þjónustustig á siglingum í Landeyjahöfn er íbúum Vestmannaeyja nauðsynlegt. Það lá fyrir í upphafi að höfnin væri aðeins annar hluti af tveimur, hinn hlutinn betra skip, þar sem höfnin og skipið spila saman þannig að árangur verði betri og frátafir minni.  Þjónustan við að hreinsa höfnina er svo það sem þarf til þess að fylla út í myndina. Eins og lýst er hér hefur þegar verið stigið það skref að fara úr dýpkunartímabilum yfir í heilsárs viðveru dýpkunarskips og nú verður stigið enn eitt skrefið með því að bjóða út dýpkun með ríkari kröfum til afkastagetu dýpkunarskips.