Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir vikudögum

Dregur úr umferðaraukningunni á höfuðborgarsvæðinu

Umferðin í mars jókst um tæp þrjú prósent

4.4.2018

Umferðin um þrjú mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu jókst um tæp þrjú prósent í mars sem er mun minni aukning en undanfarin ár. Í fyrra nam aukningin nærri 15 prósentum. Reikna má með að umferðin aukist í ár um 2-4 prósent.

Umferð milli sömu mánuða fyrir árin 2017 og 2018
Umferðin í nýliðnum mars á höfuðborgarsvæðinu jókst ekki eins mikið og á Hringvegi en áætluð aukning er um 2,9%.  Þetta er mun minni aukning en á síðasta ári en þá jókst umferðin um 14,6% um mælisnið Vegagerðarinnar. Engu að síður er um nýtt met að ræða í fjölda ökutækja í mars mánuði.  Núna hefur umferðin aukist að jafnaði um 3% á ári í mars frá árinu 2005 en um 6% síðustu 5 árin þ.a.l. er núverandi aukning langt undir meðaltali síðustu 5 ára.

Umferð eftir vikudögum
Umferðin í mars jókst hlutfallslega mest á sunnudögum, eða um 9,4%, en dróst saman um 4,7% á föstudögum.  Mest var ekið á miðvikudögum en minnst á sunnudögum, í nýliðnum mars. 

Frá áramótum milli áranna 2017 og 2018
Nú hefur umferðin aukist um 3,3%, frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Þetta er mun minni aukning miðað við árstíma síðustu ára, en á síðasta ári hafði umferðin aukist um 10,1% á sama tíma, miðað við árið á undan, og árið þar áður um 5,1%.

Horfur út árið 2018
Horfur út árið eru óbreyttar frá því að febrúarumferð lá fyrir eða spá um umferðaraukningu sem nemur 2 – 4%.