Fréttir
  • Covid Umferðin á Hb vikuleg 42
  • Covid umferðin það sem af er ári 19.10.20
  • Umferð um Hellisheiði vika 41 og 42

Dregur úr umferð á milli vikna

áhrif kórónuveirufaraldursins 

19.10.2020

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku, eða viku 42, reyndist mun minni en í sömu viku fyrir ári eða 23 prósentum minni. Umferðin er líka minni sé miðað við vikuna á undan, viku 41, eða fimm prósentum minni. Það er meira en á sama tíma í fyrra þannig að reikna má með að áhrif hvatningar sóttvarnaryfirvalda og hertar reglur um sóttvarnir skili sér í ívið minni umferð. Samdrátturinn er þó ekki jafn áberandi og í vor.

Umferðin í viku 42
Umferðin um 3 lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, í viku 42,  reyndist rúmlega 23% minni en í sömu viku á síðasta ári en 5% minni en í vikunni á undan. Á síðasta ári dróst umferðin saman um tæp 2% á milli vikna 41 og 42, svo samdrátturinn nú á milli vikna, innan ársins, er mun meiri.

Mest dróst umferðin saman um snið á Hafnarfjarðarvegi eða um tæplega 33% en minnst um snið á Reykjanesbraut eða um 18%.

Ef hegðun umferðar er skoðuð í fyrstu bylgju Covid-faraldursins, og hún borin saman við núverandi bylgju, þá virðist samdrátturinn nú ekki vera eins brattur, sem kann að markast af því að núna er öðruvísi sóttvörnum beitt en í fyrstu bylgju, þar sem höfuðborgarbúar eru hvattir til að halda sig á höfuðborgarsvæðinu til dæmis.  Þetta kann að leiða til þess að fleiri íbúar haldi sig innan höfuðborgarsvæðisins en í venjulegur ástandi sem þá aftur leiðir til meiri umferðar innan svæðisins.  Síðan gæti almenningur verið að auka þekkingu sína á því að lifa með veirunni og umferðarhegðun því eitthvað önnur en síðastliðið vor. 

Umferð um Hellisheiði
Borið hefur á umræðu um að höfuðborgarbúar séu ekki að fara að tilmælum sóttvarnarlæknis um að halda sig innan svæðisins.  Umferðardeild Vegagerðarinnar ákvað því að kanna hvort hægt væri að lesa slíka hegðun út úr umferðinni og valdi umferðarteljara á Hellisheiði til athugunar.

Ef bornar eru saman akstursstefnur árið 2019 og 2020, í vikum 41 og 43, á föstudögum og sunnudögum sést að árið 2019 ríkir jafnvægi milli akstursstrauma í austur og vestur,  þ.e.a.s. að u.þ.b. sami fjöldi ökutækja ekur austur á föstudögum og í vestur á sunnudögum.  Ef hins vegar árið 2020 er skoðað sést að bæði er um minni umferð að ræða, í heild sinni, og þar að auki er u.þ.b. 2 þús. ökutækja munur á þessum akstursstefnum.  Um 11 þús. ökutæki aka samtals í austur á föstudögum en einungis um 9 þús. ökutæki koma til baka á sunnudögum, sem gæti m.a. bent til þess að dregið hafi úr akstri höfuðborgarbúa austur fyrir fjall í helgardvöl.