Fréttir
  • Ánægð með gott dagsverk. Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra í Berufirði.
  • Vígsla í Berufirði. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra klippir á borða.
  • Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra afhjúpar skjöld í tilefni þess að bundið slitlag hefur verið lagt á allan Hringveginn.

Bundið slitlag allan hringinn

Samgönguráðherra opnar formlega nýjan veg í Berufirði en með nýjum vegarkafla hefur bundið slitlag verið lagt hringinn í kringum landið.

14.8.2019

Sigurður Ingi Jóhannsson klippti á borða í Berufirði í dag, miðvikudaginn 14. ágúst 2019, og opnaði þar með formlega nýjan vegarkafla sem styttir hringveginn um 3,6 km. Með tilkomu hins nýja vegar næst einnig það markmið sem unnið hefur verið að í fjóra áratugi, að koma bundnu slitlagi á allan Hringveginn.

Athöfnin fór fram sunnan við nýju brúna í Berufirði. Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar óskaði Austfirðingum og öllum Íslendingum til hamingju með þennan merka áfanga. Sigurður Ingi fagnaði þessum tímamótum og sagði það gæfuspor.

Að athöfninni lokinni var haldið að Havaríi á Karlsstöðum á Berufjarðarströnd þar sem boðið var upp á veitingar í anda staðarhaldaranna þeirra Berglindar Häsler og Svavars Péturs Eysteinssonar sem betur er þekktur sem Prins Póló.

Ráðherra afhjúpaði veglegan skjöld sem festur verður á grjót á áningarstað í Berufirði til minningar um þann áfanga að bundið slitlag hefur verið lagt á allan Hringveginn.

Sveinn Sveinsson svæðisstjóri Austursvæðis Vegagerðarinnar gerði grein fyrir verkinu sem lengi hefur verið í bígerð.

Nýr kafli Hringvegar um Berufjarðarbotn er 4,9 km langur, þar af liggur um 1 km yfir sjó og um leirur. Vegurinn er 8 metra breiður með bundnu slitlagi. Ný brú í Berufjarðarbotni er steinsteypt, 50 m löng og 10 m breið. Nýjar vegtengingar að bæjum á Hvannbrekku og Berufirði eru samtals 1,6 km langar.

Undirbúningur verksins hófst um árið 2007. Skiptar skoðanir voru um leiðir um Berufjarðarbotn sem seinkaði nokkuð undirbúningi verksins en verkið var boðið út í maí 2017. Lægsta tilboðið var frá Héraðsverki ehf. og MVA ehf. á Egilsstöðum. Framkvæmdir hófust 2017 og þeim átti að ljúka haustið 2018, en vegna veikra laga í sjó og þeirra viðbótarfyllinga sem þar urðu, náðist ekki að ljúka því fyrr en nú í sumar.

Nýi kaflinn um Berufjarðarbotn styttir Hringveginn um 3,6 km og er loka áfangi í að koma bundnu slitlagi á Hringveginn um landið, samtals 1.322 km. Það verk hófst árin 1978-1979.